Réðust til atlögu vopnaðir hnífum

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. www.mats.is

Fjórir karlmenn brutust inn í íbúð á jarðhæð í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði um helgina. Mennirnir réðust á húsráðanda sem var þar ásamt syni sínum. Sá reyndi að verjast árásum mannanna en tveir þeirra voru vopnaðir hnífum. Húsráðandanum tókst að lokum að koma syni sínum undan út um svaladyr. Hann reyndi í sífellu að koma árásarmönnunum í skilning um að þeir hefðu greinilega farið mannavillt. Að lokum skilaði það árangri og höfðu þeir sig á brott úr íbúðinni.

Húsráðandinn segir augljóst að árásarmennirnir hafi haft það að markmiði að drepa þann sem þeir leituðu að. Hnífnum hafi aðallega verið beint að hálsi hans og maga en ekki t.d. handleggjum. Honum hafi þó einhvern veginn tekist að komast ósár frá þessu fyrir utan nokkra marbletti. Hann segist ekki hafa munað að öllu leyti eftir þessu og að sonur hans hafi þurft að fylla inn í ákveðnar eyður. Bæði hafi þetta gerst hratt og öll hugsun hans verið við það að verja sig og son sinn fyrir hnefum og hnífsblaði.

Húsráðandinn segir að komið hafi í ljós að sá sem mennirnir voru að leita að hafi leigt umrædda íbúð á undan honum. Hann hringdi í lögregluna strax og hann hafði haft uppi á syni sínum og kom hún á staðinn um 20 mínútum síðar. Þeir hafi verið mjög almennilegir og hlustað á hvað gerðist og síðan farið. Hann hafi hins vegar ekkert heyrt frá lögreglunni eftir það. Það næsta sem húsráðandinn gerði var að flytja út úr íbúðinni sem hann var með á leigu, enda kærði hann sig ekki um að vera þar stundinni lengur með fjölskyldu sína.  Húsráðandinn hefur nú flutt með fjölskyldu sína úr íbúðinni sem hann var með á leigu.

Nokkrir grunaðir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gat lítið tjáð sig um málið, þegar Morgunblaðið hafði samband, nema að það væri í rannsókn. Búið er að leggja fram kæru.

Nokkrir menn liggja nú þegar undir grun um að hafa framið tilræðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert