Þess var krafist í upphafi fundar á Alþingi nú klukkan ellefu, að tekin yrði á dagskrá þingsályktunartillaga Unnar Brár Konráðsdóttur um afturköllun umsóknar Íslands um aðild að ESB.
Tíu þingmenn kváðu sér hljóðs og ræddu það sem fram kom í Morgunblaðinu í morgun, að þýska þingið hefði krafist þess og staðgengill þýska sendiherrans á íslandi komið því til skila hér á landi, að Íslendingar hættu hvalveiðum sínum til þess að eiga kost á inngöngu í Evrópusambandið.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna um fundarstjórn forseta á því að vekja athygli á þessu. Sagðist hann telja það óforsvaranlegt að viðræðum við ESB yrði haldið áfram á meðan ágreiningsmál um sjávarútvegsmál væri í uppsiglingu. Ekki ætti að halda áfram með málið, sem kostar um sjö milljarða króna, þegar stefndi í ágreining.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tók undir með Jóni og krafðist þess að dagskrá yrði breytt.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði það rétt að gær hefði verið fundur með staðgengli þýska sendiherrans þar sem þessari kröfu Þjóðverja var komið ,,mjög rækilega á framfæri".
Einar Kr. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki, sagði andstæðingum ESB-aðildar alltaf leggjast eitthvað til í því máli. Sagði hann málið álíka gáfulegt og það ef Íslendingar gengju til viðræðna við ESB á þeirri forsendu að Þjóðverjar yrðu að hætta bílaframleiðslu sinni, þar sem bílar valdi mengun og slysum.
„Við ætlum okkur að verja íslenskan sjávarútveg og réttinn til að geta veitt hval með sjálfbærum hætti. En því ber að fagna í sjálfu sér að Þjóðverjar skuli með þessum hætti leggja stein í götu aðildar okkar að ESB," sagði Einar.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, minnti á að fundur verður í utanríkismálanefnd síðar í dag og þá myndi gefast færi á að ræða málið. Hún minnti á að aðildarviðræður eru alls ekki hafnar og bætti því við, þar sem talað hefði verið um hvalveiðarnar sem hluta af undirstöðuatvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, að útflutningstekjur af hvalveiðum á síðasta ári hefðu verið fimm þúsund krónur.
Guðlaugur Þór Þórðarson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, kröfðust einnig umræðu um málið.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, steig í pontu og sagðist hafa haft af því nokkrar áhyggjur sem fram kom í Morgunblaðinu í morgun um kröfur Þjóðverjanna. ,,Þetta stemmir mjög vel við það sem sendiherra ESB hér á landi og fleiri hafa haldið fram, sem er að aðlögunarferlið taki jafnlangan tíma og Ísland vilji taka í það," sagði Ásmundur. Það er að segja að því fyrr sem Íslendingar létu undan kröfum ESB um stefnu sína í helstu málum, því fyrr myndi það fá inngöngu í sambandið.
Jón Gunnarsson tók aftur til máls og sagði að það hlyti að vera mikilvægt að heyra hver svör ríkisstjórnarinnar við þessum kröfum Þjóðverja hafa verið.