„Sterkara Ísland - félag Evrópusinna á Íslandi fagnar ákvörðun leiðtogaráðs Evrópusambandsins að samþykkja aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu,“ segir í tilkynningu frá félaginu sem telur að Ísland fái nú kost á að taka „upplýsta ákvörðun“ um framtíðarsamvinnu við ESB-ríkin.
Segir í tilkynningunni að nú í „fyrsta sinn munu Íslendingar allir eiga þess kost að taka upplýsta ákvörðun um framtíðarsamstarf Íslands við Evrópusambandsríkin“ og að það sé því „táknrænt að þessi ákvörðun skuli vera tekin einmitt á þjóðhátíðardaginn“.
„Allt frá stofnun Sterkara Íslands hefur félagið lagt áherslu á forðast gífuryrði og hræðsluáróður. Við munum áfram leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að hér á landi geti skapast upplýsandi og heiðarleg umræða um kosti og galla þess að Ísland gangi í ESB. Við teljum það sameiginlegt verkefni okkar allra að tryggja að sem besti samningur náist fyrir land og þjóð.
Til að stuðla að því að hér skapist upplýsandi og heiðarleg umræða um kosti og galla þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, skorum við á yfirlýst samtök andstæðinga Evrópusambandsaðildar að lýsa því opinberlega yfir að þau heiti því að veita réttar upplýsingar þegar kostir og gallar sambandsins eru dregnir fram og að stuðla að því að hræðsluáróðri og staðreyndavillum sé ekki beitt til að villa fólki sýn,“ segir í tilkynningu félagsins sem fagnar því að kostir og gallar aðildar verði metnir í umræðunni fram undan.
„Þjóðin á skilið þá virðingu að hér verði skapað umhverfi fyrir gagnlega og góða umræðu um kosti og galla aðildar svo þjóðin hafi tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um hvort aðild að ESB sé besti kosturinn fyrir land og þjóð.“