Ekki fer á milli mála að Framsóknarflokkurinn bætti við sig manni í sveitarstjórnarkosningunum á Dalvík. Þetta fullyrðir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, en hann vísar á bug fregnum um að óvissa sé um útkomuna.
„Það sem var kært er að það var strikað yfir nöfn á listum á 8 atkvæðum án þess að merkt var við listabókstafinn. Það sem að gerist er að Framsóknarflokkurinn fær 2 atkvæði, J-listi 2 og Sjálfstæðisflokkurinn 4.
Þetta þýðir að stuðullinn breytist Framsóknarflokknum í hag þannig að hann bætir við sig öðrum manni en J-listi missir einn mann, fer úr fjórum í þrjá, og missir þar með hreinan meirihluta,“ segir Höskuldur sem telur niðurstöðuna skýra.
„Því hefur verið haldið fram að fullkomin óvissa sé um hvað þetta þýði. Þetta er hins vegar alveg á hreinu. Úrslitin eru sem áður segir. Framsókn bætir við sig manni. Þetta var ástæðan fyrir því að við kærðum úrslitin því við vissum hvernig stuðullinn myndi breytast. Það er enginn vafi í mínum huga um útkomuna nema að þetta verði kært í framhaldinu.“
Aðspurður um meirihlutamyndun á Dalvík eftir úrskurðinn lætur Höskuldur nægja að segja að þreifingar séu í gangi. Menn séu að ræða saman en það muni skýrast betur á næstu dögum.