Mögulegt er að þeir lánþegar sem greitt hafa af gengistryggðum lánum sínum geti krafið lánardrottna sína um endurgreiðslu þess hluta afborgananna sem til er kominn vegna gengistryggingarinnar.
Leiðir þetta af dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp fyrr í vikunni en niðurstaða hans var að gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum væri andstæð lögum. Endurgreiðsla getur þó verið háð því að greitt hafi verið með fyrirvara.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að niðurstaða dómsins geti komið efnahag þjóðarinnar vel, ekki aðeins þeim sem tóku gengistryggð lán. Með því að létta á byrðum fólks sem tók lánin aukist fjárhagslegt svigrúm þess og það geti orðið til þess að örva efnahagslífið.