Heilbrigðisráðherra hefur skipað stýrihóp til að vinna að vísindarannsókn á heilsufarslegum áhrifum eldgossins til langs tíma á íbúa landsins í ljósi þeirra áhrifa sem eldgosið í Eyjafjallajökli getur haft á heilsu landsmanna. Þetta kemur fram á heimasíðu ráðuneytisins. Sérstaklega á að skoða þá sem búsettir eru nálægt eldstöðinni.
Samkvæmt greinargerð heilbrigðisráðherra um áætlaðan kostnað heilbrigðisþjónustunnar vegna eldgossins árið 2010, hefur Heilbrigðisráðuneytið tekið þá ákvörðun að allur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu útaf eldgosum í Eyjafjallajökli fari um sérstakan fjárlagalið sem er í höndum sóttvarnalæknis fyrir hönd ráðuneytisins. Sóttvarnalæknir aflar upplýsinga um áætlaðan kostnað frá viðkomandi aðilum og leggur fyrir ráðherra.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Landspítalinn og sóttvarnalæknir hafa áætlað kostnað heilbrigðisþjónustunnar á þessu ári vegna gossins en áætlunin er háð óvissu þar sem ekki er vitað á þessari stundu um framhald málsins.
Að mati Heilbrigðisstofnun Suðurlands er gert ráð fyrir aukinni heilbrigðisþjónustu og áfallahjálp næstu mánuði með aukinni vinnu sálfræðinga, lækna og hjúkrunarfræðinga. Einnig er það mat sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítalans að þörf sé á þjónustu við áfallahjálp næstu mánuði.
Að beiðni sóttvarnalæknis hefur Landspítalinn gert mat á kostnaði vegna sérstaks rannsóknarteymis vegna öndunarfæra- og bólgusjúkdóma af völdum gosefna hjá þeim sem eru með einkenni um sjúkdóm eða eru með undirliggjandi hjarta og lungnasjúkdóma.
Einnig er innifalinn kostnaður vegna vinnu geðhjúkrunarfræðings við samræmingu áfallahjálpar, almannavarnir og skipulag bráðaþjónustu, breytingar á vöktum og ýmis búnaður til varnar ösku svo sem öndunargrímur og hlífðargleraugu og fleira. Samtals nemur heildarkostnaður stofnananna þriggja við áætlunina um 41,5 milljónir króna.