Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málum um gengistryggð bílalán sem féll á miðvikudag er öll gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum ólögmæt.
Er þetta samdóma álit sérfróðra lögfræðinga en í dóminum segir orðrétt: „Lög nr. 38/2001 [um vexti og verðtryggingu] heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.“
Eru því ákvæði allra gerðra lánasamninga um lán í íslenskum krónum sem kveða á um gengistryggingu ólögleg og ekki skuldbindandi fyrir samningsaðila. Engu máli skiptir að ekki hafi verið dæmt um samningana; samkvæmt meginreglum samningaréttar eru ólögmæt samningsákvæði almennt ekki bindandi.
Þrátt fyrir að niðurstaða Hæstaréttar sé að þessu leyti skýr eru enn eftir ýmsir lausir endar. Eins og mál standa eru þeir sem tóku gengistryggð lán nú með lán sem ekki eru verðtryggð á nokkurn hátt og bera jafnvel mun lægri vexti en almennt tíðkast. Er hæpið að lánþegar hefðu á sínum tíma fengið lán á slíkum kostakjörum. Ekki er fjarri lagi að álykta að lánasamningarnir hefðu með réttum forsendum frá upphafi kveðið á um lögmæta verðtryggingu, tengingu við vísitölu neysluverðs, og eftir atvikum hærri vexti, að því er fram kemur í ítarlegri fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.
.