Ætla má að sú neysluaukning muni reynast minniháttar sem kann að hljótast af því að afborganir þúsunda einstaklinga vegna bílalána minnki verulega. Þetta er mat Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem á von á góðum efnahagsfréttum í haust.
- Með breyttum forsendum bílalána skapast aukið svigrúm hjá þúsundum einstaklinga til að auka neyslu sína á nýjan leik. Gæti þetta leitt til þess að neyslan aukist enn hraðar en gert er ráð fyrir í nýjustu efnahagsspám?
„Það er alltof snemmt að leggjast í djúpa greiningu á efnahagslegum og þjóðhagslegum áhrifum. Það geta orðið tvær hliðar á því þó það sé vissulega þannig að ef það rýmkast fjárhagur þúsunda, ef ekki tugþúsunda, einstaklinga að þá hefur það í sjálfu sér jákvæð áhrif.
Það geta þó fallið til reikningar á móti þannig að það er full snemmt að geta sér til um heildaráhrifin. Það ræðst dálítið af því hvernig úr þessu öllu spilast. Það er alveg ljóst að það verða töp hjá þeim sem hafa veitt lánin.“
Svigrúm til vaxtalækkanna
- Hvenær eigum við von á því að sjá vaxtalækkanir?
„Ef ég man rétt er vaxtaákvarðanadagur 23. júní og það er seðlabankans að ákveða það. Maður gefur sér að forsendurnar fyrir áframhaldandi vaxtalækkunarferli séu til staðar og maður ræður það af þessum jákvæðu vísbendingum, styrkingu krónunnar, minnkandi verðbólgu og öðru slíku.“
- Hvenær mega kjósendur þínir eiga von á því að heyra góðar fréttir?
„Þegar við getum endanlega sagt að það sé staðfest að það sé orðinn viðsnúningur í hagkerfinu og við séum lögð af stað upp á við, þótt í litlum mæli sé, að þá verði það mjög dýrmæt tímamót því að það er allt annað að eiga við þetta þegar bati er hafinn þótt lítill sé.
Andrúmsloftið verður allt annað þegar bati er hafinn. Ég geri mér enn vonir um að við fáum staðfest að viðsnúningurinn verði á þessu ári.“
Ekki samantekin ráð
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lét þau orð falla í viðtali við fréttavef Morgunblaðsins í gær að hann teldi ríkisstjórnina við það að komast í gegnum erfiðasta skaflinn í þeim brýnu verkefnum sem krefjist úrlausnar.
Steingrímur kvaðst einnig bjartsýnni nú en fyrir nokkrum mánuðum þegar hann fór yfir stöðu efnahagsmála í þingræðu í vikunni.
Aðspurður hvort það séu samantekin ráð ráðherra ríkisstjórnarinnar að ræða efnahagsástandið nú á jákvæðari nótum en undanfarna mánuði segir Steingrímur enga slíka stefnumörkun hafa verið tekna.
Spili ekki á neyslumynstrið
- En telur Steingrímur að ríkið eigi að stuðla að aukinni neyslu, meðal annars með því að létta á þeirri svartsýni sem ríkt hefur, til þess að breikka skattstofna sína?
„Ég held að menn eigi ekki að vera að hvetja til einhverrar tiltekinnar hegðunar en að sjálfsögðu hefur það jákvæð áhrif að fólk öðlist kjark til að fjárfesta og neyta á nýjan leik eins og það hefur sjálft þörf fyrir.
Ég held þó að það eigi ekki að líta svo á að það eigi að spila með það eins og hagstjórnartæki. Vandinn í ríkisfjármálunum er auðvitað af þeirri stærðargráðu að minniháttar aukning í tekjum og tekjubreytingar draga ekki langt upp í það.
Það dugar ekki til. Því miður. En allt sem leggst með okkur er af hinu góða og gerir hlutina auðveldari.“
- Nú eru rúmlega 1.000 milljarðar á innlánsreikningum. Væri ekki heppilegt fyrir þjóðarbúið ef fólk fengi aftur traust til þess að fjárfesta og kaupa hluti?
„Jú, að sjálfsögðu og þá sérstaklega ef fólk ræðst í fjárfestingar sem fólk telur sig sjálft hafa þörf fyrir. Ég hef hvatt mikið til þess að fólk noti tækifærið og endurbæti hús sín og eftir atvikum ferðist innanlands, enda að sjálfsögðu þjóðhagslega mikilvægt að fólk kaupi íslenskar vörur og þjónustu. En auðvitað er ég ekki að tala fyrir því að það eigi að stýra hegðun fólks.“
Fari ekki bandarísku leiðina
- Nú er það til dæmis þekkt frá Bandaríkjunum að stjórnvöld hvetja fólk til að kaupa meira til að örva hagkerfið. Er þetta aðferðafræði sem þér hugnast?
„Eins og ég segi að þá tel ég að hlutverk stjórnvalda eigi að takmarkast við að miðla réttum upplýsingum og að sjálfsögðu eins og efni standa til frekar stappa stálinu í fólk heldur en að draga úr því kjarkinn.
Ég tel þó ekki að það eigi að reyna að spila á hegðun fólks í hagstjórnarlegu tilliti. En ég sé ekkert athugavert við það að vera almennt hvetjandi eins og ég hef verið varðandi viðhald og endurbætur á húsnæði,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.