Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán vera meiriháttar áfellisdóm fyrir íslenska fjármálakerfið. Þetta sagði ráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi þar sem m.a. var rætt um dómana.
Stjórnvöld áætla að bílalán sem eru tengd erlendri mynt nemi um 100 milljörðum króna á heildina litið. Stjórnvöld geta ekki metið á þessari stundu hvaða áhrif dómar Hæstaréttar muni hafa á þessa upphæð.
Ríkisstjórnin telur hins vegar að Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki, þrír stærstu bankar landsins, geti staðið þetta af sér.
Þá segja stjórnvöld að ekki verði sett nein lög sem geti bitnað á neytendum, þ.e. engin inngrip sem skerði rétt almennings. Það verði hins vegar að kanna hvort þörf sé á aðkomu stjórnvalda. Mikill óvissa sé hins vegar enn ríkjandi.