Senda ekki út greiðsluseðla

mbl.is/Ómar

SP-fjármögnun mun ekki senda út greiðsluseðla fyrir næstu mánaðamót og hefur jafnframt stöðvað allar almennar innheimtuaðgerðir hvað varðar gengistryggð lán fyrirtækisins. Haraldur Ólafsson, forstöðumaður fyrirtækjalausna hjá SP, segir að þetta sé gert á meðan óvissa vari um framhald mála.

Hann vill benda fólki á að bíða með að selja t.d. bíla áður en formleg niðurstaða fæst í málið, þ.e. hvernig eigi að reikna lánin til baka. „Vonandi skýrist það á næstu dögum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Ákveðið hafi verið að gera hlé á öllu er varðar erlend lán. „Við höfum sett hlé á útsendingar á greiðsluseðlum, innheimtubréfum, skeytum og riftunum. Við erum að setja hlé á alla vörslusviptingu bíla og tækja. Hlé sett á alla sölu á vörslusviptum bílum og tækjum. Við samþykkjum ekki yfirtökur á erlendum lánum,“ segir hann. Það verði hins vegar hægt að útbúa nýtt íslenskt lán með nýjum forsendum.

Málin séu því í biðstöðu þar til skýrari mynd fáist. Hann tekur hins vegar fram að allt varðandi íslensk lán sé óbreytt.

Þá segir Haraldur að þeir sem hafi sett sig í samband við SP-fjármögnun geri sér grein fyrir stöðunni. „Menn eru að forvitnast og aðallega að spyrja hvenær megi vænta svara. Við höfum það ekki alveg í hendi okkar,“ segir Haraldur og bætir við: „Um leið og við fáum niðurstöðu þá munum við klára það mál eins hratt og við getum til þess að okkar viðskiptavinir verði ekki fyrir óþægindum.“

Sjá einnig aðra frétt um Avant og Lýsingu.

Vefur SP-fjármögnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka