„Við teljum okkur hafa skýr og efnisleg rök fyrir öllu sem við höfum verið að gera og það verður að koma í ljós fyrir dómstólnum hvernig okkur gengur að skýra þennan málstað,“ segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra um þá ákvörðun ríkisins að taka til varna fyrir EFTA-dómtólnum.
Íslenska ríkið mun þannig grípa til varna gegn EFTA-dómstólnum í kjölfar þeirrar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA að stefna íslenska ríkinu fyrir dómstólnum á þeim grundvelli að lög um skyldur erlendra fyrirtækja á Íslandi samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins en slysatryggingar heyra undir þær skyldur.
Telja sig hafa farið að öllum tilmælum
Árni Páll segir ríkið hafa komið til móts við sjónarmið dómstólsins.
„Við höfum farið að öllum tilmælum sem við teljum að sé hægt að túlka sem athugasemdir við einhvers konar samkeppnishindranir sem þarnar kunna að vera og það er gert í löggjöf sem er nú komin í gegnum þingið.
Út af standa þessi atriði og kröfur um hvort menn uppfylli lágmarksákvæði kjarasamninga um sjúkratryggingar og því um líkt. Við teljum þetta einfaldlega mjög mikilvægan þátt í þeirri umgjörð sem við höfum sett um samninga við aðila vinnumarkaðarins um lágmarkskjör sem gildi þá líka gagnvart starfsmannaleigum og erlendu vinnuafli hér á landi.
Við viljum einfaldlega láta reyna á það kerfi sem við höfum haft og hefur verið mjög til góðs fyrir íslenskan vinnumarkað og hjálpað okkur að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Við hyggjumst verja það af fullu og öllu afli og láta á það reyna fyrir dómnum hvort okkar skilningur sé ekki fullnægjandi að þessu leyti.“
Uppfylli lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði
Árni Páll segir ríkistjórnina telja sig hafa sterk, efnisleg rök í málinu.
„Við höfum líka tekið skýrt fram við Eftirlitsstofnun EFTA hvort að það sé í þessu aukin krafa um tvöfalda tryggingu, það er að segja ef starfsfólk fyrirtækjanna sé tryggt í heimalandinu með öðrum hætti að þá komi sú trygging til frádráttar en að uppfylla þurfi lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði.
Við teljum okkur hafa skýr og efnisleg rök fyrir öllu sem við höfum verið að gera og það verður að koma í ljós fyrir dómstólnum hvernig okkur gengur að skýra þennan málstað. Það hafa auðvitað verið mismunandi sjónarmið milli ríkja innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins hvaða áherslur ber að leggja í þessum efnum.“
Fram kemur í tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu að það telji að „ákvæðum laga um rétt útsendra starfsmanna til launa vegna veikinda og slysa og til slysatrygginga verði ekki breytt þar sem um mikilvæg réttindi sé að ræða“.
Varðar lög frá árinu 2007
Í tilkynningunni segir:
„Því hefur ekki verið orðið við kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA um afnám þeirra og mun íslenska ríkið grípa til varna fyrir EFTA dómstólnum.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Eftirlitsstofnun EFTA ákveðið að stefna íslenska ríkinu fyrir EFTA dómstólinn á þeim forsendum að lög frá árinu 2007 um skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn sína til tímabundinna starfa á Íslandi samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins um frjálsa þjónustustarfsemi né ákvæðum tilskipunar um úrsenda starfsmenn.
Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur í samskiptum við EFTA lagt áherslu á nauðsyn þess að halda inni í lögunum ákvæðum um rétt útsendra starfsmanna til launa í veikinda- og slysatilvikum og rétt þeirra til slysatrygginga vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku. Er það álit ráðuneytisins að þarna sé um mikilvæg grundvallarréttindi að ræða sem ekki verði fallið frá fyrr en að fullreyndu, því verði skilningur Eftirlitsstofnunar EFTA staðfestur muni það setja í uppnám þær margháttuðu varnir sem hér hefur verið komið upp á undanförnum árum gegn félagslegum undirboðum.
Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki fallist á röksemdir Íslands í þessu máli. Íslensk stjórnvöld hafa aftur á móti ákveðið að láta reyna á sjónarmið sín fyrir dómi og munu ekki hvika frá þeirri stefnu sem þau hafa markað til varnar félagslegum undirboðum nema á grundvelli skýrra fyrirmæla EFTA dómstólsins.“