„Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að ríkisstjórn með aðild allra stjórnmálaflokka sé til þess fallin að stuðla að þessu núna,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, aðspurður um þá yfirlýsingu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að hann sé opinn fyrir hugmyndum um þjóðstjórn.
Ögmundur er ekki sammála því að slíkt skref sé heppilegt á þessum tímapunkti.
„Prófsteinn á ríkisstjórnir er ekki hvernig þær eru samansettar heldur hvað þær gera og þá hvort og hversu vel þeim tekst að starfa í þágu þjóðarinnar. Það þýðir á þessum örlagatímum að standa vörð um auðlindir okkar til sjávar og sveita og stuðla að opnu, lýðræðislegu þjóðfélagi.
Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að ríkisstjórn með aðild allra stjórnmálaflokka sé til þess fallin að stuðla að þessu núna. Það sem við þurfum er vissulega góð málefnaleg samvinna og opið lýðræði. Það er verkefnið en ekki að stuðla að flokkspólitískri samtryggingu í þjóðfélaginu.“
- Ertu þá í stuttu máli andvígur þessari hugmynd?
„Í stuttu máli hef ég ekki sannfæringu fyrir því að við náum betur saman um að tryggja betur almannaeign á auðlindum, að stokka upp fiskveiðistjórnunarkerfið og tryggja opinbert eignarhald á orkuauðlindum með aðkomu fleiri flokka að ríkisstjórn. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því.“
Má aldrei verða til að setja hlutina í frost
- Hvers vegna telurðu að Össur leggi þetta fram núna? Getur það tengst yfirlýstri andstöðu leiðtoga Vinstri grænna, samanber orð flokksformannsins hér í gær, við inngöngu Íslands í ESB daginn eftir að leiðtogaráðið gaf grænt ljós á viðræður?
„Ég ætla ekki að ráða í hvað býr að baki þessum hugrenningum Össurar Skarphéðinssonar. Hann verður að svara því sjálfur. Það er augljóst að þessi hugmynd má aldrei verða til þess að setja hér allt í frost. Íslendingar þurfa á því að halda að við störfum í þágu þjóðarinnar.
Það þýðir í mínum huga að standa vaktina gegn fjármagnsöflum, erlendum og innlendum, sem ásælast auðlindir okkar og það hefur ríkisstjórninni ekki tekist sem skyldi. Henni hefur heldur ekki tekist sem skyldi að starfa í anda opins, gagnsæs lýðræðis og þetta er verkefnið. Menn eiga ekki að hlaupast frá þessum skyldum sínum og drepa málum á dreif með tali af þessu tagi.“
Leyndarhyggjan lengi verið vandamál
- Þú lést þess getið í þættinum Mannamáli með Sigmundi Erni á ÍNN um daginn að þú teldir leyndarhyggju einn helsta veikleika ríkisstjórnarinnar. Hvernig stendur á þessari leynd?
„Þetta hefur verið einkenni á íslenskum stjórnmálum í langan tíma, í aðdraganda hrunsins og í miklu lengri tíma. Og krafan núna er um breytt stjórnmál, um breytta aðkomu að stjórnmálum og það er það sem er verkefnið miklu frekar en að horfa til stjórnarmynstursins sem einhverrar allsherjar lausnar.
Hver og einn flokkur þarf að endurskoða sína afstöðu til vinnubragða í stjórnmálum. Það er verkefnið en ekki að kæfa slíka umræðu í einhvers konar samtryggingu,“ segir Ögmundur Jónasson.