Strandveiðar, sem hófust til bráðabirgða á síðasta ári og festar voru í sessi með lagasetningu í apríl sl., eru nú í fullum gangi, en veiðitímabilið í ár er frá maí og til loka ágúst. Eitt af því sem gagnrýnt hefur verið í fyrirkomulagi veiðanna er ójafnvægi á milli þeirra fjögurra strandveiðisvæða sem landinu er skipt upp í þegar kemur að úthlutun kvóta. Á tveimur þeirra, svæðum A og D, hefur kvótinn klárast þegar tiltölulega skammt hefur verið liðið á veiðitímabilin, sem er almanaksmánuðurinn, á meðan hann hefur dugað út tímabilið á svæðum B og C og jafnvel rúmlega það.
Örn segir að ýmislegt spili þarna inn í, ekki síst það hversu vel veiðist á hverju svæði á hverjum tíma. Þá skipti einnig miklu máli sá fjöldi báta sem gerður er út á hverju svæði. Þannig séu yfir 200 bátar gerðir út á svæði A, sem m.a. Vestfirðir tilheyra, en mun færri bátar séu gerðir út á svæðum B og C. Staðan á milli svæða verði væntanlega endurskoðuð síðar í sumar og staðan jöfnuð á milli svæða , en sjávarútvegsráðherra hafi vald til þess að færa kvóta á milli þeirra.
Vandamálið er hins vegar þveröfugt hjá Gísla Gunnari Oddgeirssyni sem gerir út Sjöfn EA frá Grenivík sem tilheyrir svæði B. Þar vantar fleiri veiðidaga fremur en meiri kvóta. Gísli segir að ekki megi mikið út af bera svo veiða megi upp í úthlutaðan kvóta. Ekki sé heimilt að stunda strandveiðar nema fjóra daga í viku, allajafna, og þá geti veður alltaf sett strik í reikninginn. Hann segir að á svæði B séu vissulega færri bátar um hituna en á móti þurfi að hafa talsvert meira fyrir því að hafa uppi á aflanum.
» Svæði B nær frá Strandabyggð á austanverðum Vestfjörðum til Grýtubakkahrepps við austanverðan Eyjafjörð. » Svæði C teygir sig frá Þingeyjarsveit í Þingeyjarsýslu og austur að Djúpavogshreppi á Austfjörðum.
» Svæði D nær síðan frá Sveitarfélaginu Hornafirði og alla leið vestur að Borgarbyggð í Borgarfjarðarsýslu.