Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hyggst reisa 3.000 fermetra hús austan við Háskólabíó sem mun hýsa alþjóðlega tungumálamiðstöð og alla kennslu og rannsóknir í þeim 14 erlendu tungumálum sem kennd eru við Háskóla Íslands. Áætlað er að verkið kosti 1.200 milljónir og hafa 800 milljónir þegar safnast.
Þetta kom fram á fundi stofnunarinnar á Háskólatorgi um hádegisbilið.
Fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni að í tungumálamiðstöðinni „muni verða þekkingar- og upplifunarsetur þar sem leikir og lærðir geta fræðst á lifandi hátt um ólík tungumál og menningarheima“.
Þá verði sérstakur fyrirlestrasalur tileinkaður Vigdísi ásamt því sem að í sérstakri Vigdísarstofu verði hægt að fræðast um líf hennar og störf, ekki síst í þágu tungumála.
Aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Koichiro Matsuura, hefur fyrir hönd stofnunar sinnar mælt með verkefninu og lýst yfir stuðningi við það. Þá hefur menntamálaráðuneytið farið þess á leit að alþjóðlega tungumálstöðin fái vottun sem UNESCO-stofnun, að því er segir í tilkynningunni.
Brautryðjandastarfi haldið áfram
Í tilkynningunni segir jafnframt: „Með því að koma tungumálamiðstöðinni á fót er haldið áfram því brautryðjendastarfi sem Vigdís Finnbogadóttir hefur unnið á heimsvísu, bæði sem forseti Íslands og sem velgjörðarsendiherra tungumála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar hafa aldrei haft betra tækifæri en nú til þess að auka samskipti við aðrar þjóðir; ekki einungis til að auka menningarlæsi heldur einnig til að efla viðskipti sín.
Þannig getum við sem þjóð gert margt í senn, kynnst menningu annarra og tungumálum og treyst um leið stoðir samfélagsins og aukið hagvöxt á ný. Með byggingu húss fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð verður lyft grettistaki í tungumála- og menningarrannsóknum á Íslandi sem stuðlar að aukinni þekkingu á sérkennum þjóða. Þannig eykst okkur ekki bara víðsýni heldur vænkast hagur okkar allra.“
Einörð barátta Vigdísar
Jafnframt er vikið að framlagi Vigdísar til tungumálanáms.
„Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur talað einarðlega fyrir mikilvægi tungumálakunnáttu og menningarlæsis bæði hér heima og erlendis. Hún hefur ávallt hvatt til opins huga og jákvæðrar afstöðu gagnvart framandi menningu. Það er því ekki að ástæðulausu sem Vigdís er fyrsti velgjörðarsendiherra tungumála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Í dag var kynnt framlag fjölmargra aðila til byggingar nýja hússins. Nú þegar hafa safnast styrkir og áheit fyrir um 800 milljónir króna til verkefnisins en heildarkostnaður við verkið er áætlaður 1.200 milljónir króna.
Á þessu ári eru 30 ár liðin frá sögulegu kjöri Vigdísar Finnbogadóttur sem fyrsti kvenforseti heims og á árinu fagnar þjóðin einnig áttræðisafmæli Vigdísar. Af því tilefni hafa fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir, sjóðir, einstaklingar og opinberir aðilar lýst áhuga á að styrkja verkefnið. Fjölmargir hafa einnig þegar lagt fram áheit eða umtalsvert fé til að tryggja byggingu þess. Það fé verður grunnurinn að húsinu sem senn mun rísa í nafni Vigdísar.“
Rausnarskapur Færeyinga
Segir jafnframt í tilkynningunni að stærsti stuðningsaðilinn, utan Háskóla Íslands, sé A.P. Möller og Hustru Chastine Mc-Kinney Möllers Fond en af innlendum aðilum er Landsbankinn stærsti einstaki stuðningsaðilinn, auk þess sem veglegir styrkir hafi borist frá Íslandsbanka og Icelandic Group. Þá muni Reykjavíkurborg leggja til fjármagn við hönnun og frágang lóðar.
Og Færeyingar hugsa hlýtt til Vigdísar. Þannig segir í tilkynningunni: „Færeyska lögþingið ásamt 5 færeyskum fyrirtækjum Framherji, Føroya Banka, Tryggingarfelagi Føroya, Atlantic Ariways og Smyril Line lögðu fram myndarlegan styrk á afmæli Vigdísar í vor. Alheims Auður, Icelandair Group og Atlantsolía hafa einnig heitið framlögum til verkefnisins.
Þá hefur Valitor heitið fé til reksturs stofnunarinnar. Kennarasamband Íslands og Bandalag háskólamanna hafa líka styrkt dyggilega. Að auki hefur fjöldi einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka stutt verkefnið með óeigingjörnum hætti.“
Opnuð hefur verið sérstök heimasíða þar sem velunnurum Vigdísar gefst kostur á að styrkja verkefnið.