Kvennahlaupið gekk ljómandi vel

Frá kvennahlaupinu. Talið er að um 6000 konur hafi hlaupið …
Frá kvennahlaupinu. Talið er að um 6000 konur hafi hlaupið í Garðabæ. mbl.is/Eggert

„Það gekk allt ljómandi vel um allt land,“ segir Jóna Hildur Bjarnadóttir, sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs ÍSÍ en Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ var haldið í tuttugasta og fyrsta sinn í dag, kvennadaginn, 19. júní.

Hlaupið er útbreiddasti og fjölmennasti íþróttaviðburður sem haldinn er á Íslandi ár hvert.

Búist er við að um 15.500 konur hafi tekið þátt að þessu sinni en hlaupið var á 85 stöðum hér á landi og á 16 stöðum erlendis. Jóna Hildur segist ánægð með þátttökuna þó svo eitthvað færri hafi tekið þátt nú miðað við í fyrra. Þá var afmæli Kvennahlaupsins og tóku um 16.000 konur þátt.

Stærsta hlaupið var í Garðabæ í dag en þátttakendur þar voru í kringum 6000. 

Yfirskrift hlaupsins í ár var „Konur eru konum bestar“ og var það unnið í samstarfi við Kvenfélagasamband Íslands sem fagnar 80 ára afmæli sínu á árinu.

Um þúsundir kvenna á öllum aldri starfa í undir merkjum Kvenfélagasambandsins og vinna eftir markmið þess en það er að stuðla að framfaramálum er varða velferð barna, kvenna og heimila í landinu og standa vörð um hag þeirra. Jafnframt að efla félagsleg tengsl og samvinnu kvenna, hvetja konur til áhrifa í þjóðfélaginu, veita kvenfélögunum stuðning og fræðslu og styðja mál er efla vináttu og frið meðal manna og þjóða nær og fjær. Kvenfélagasambandið starfar með ýmsum félögum og samtökum er láta sig varða markmið og hagsmunamál þess.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert