Sjaldséður gestur dvelur nú í góðu yfirlæti í Fiska- og náttúrugripasafni Vestmannaeyja. Um er að ræða leðurblöku sem gerðist laumufarþegi í Arnarfelli, flutningaskipi Samskipa á dögunum. Hún hefur m.a. verið kölluð Batman.
Samskip færði safninu svo leðurblökuna. „Við erum með hana hérna í búri, greyið. Hún er voðalega róleg. Hún sefur bara og sefur og hangir á löppunum,“ segir Georg Skæringsson, verkefnastjóri hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja, í samtali við mbl.is.
Spurður út í tegundina þá segir Georg að hún kallist á ensku „little brown bat“ eða „litla brúna leðurblaka“. Hann segir að slík dýr sé aðallega að finna í Kanada og Bandaríkjunum. Það sé hins vegar ekki ljóst hvar leðurblakan ákvað að gerast laumufarþegi.
Georg segir að bæjarbúar hafi sýnt blökunni mikinn áhuga. „Það er búið að vera mikil traffík um helgina,“ segir hann og bætir við að bæði börn og fullorðnir vilji skoða dýrið.
„Ég veit nú ekki hvort þetta er í fyrsta sinn sem það kemur lifandi leðurblaka hingað inn. Þetta er allavega ekki reglulegur viðburður,“ segir hann.