Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, veiddi fyrstu laxa sumarsins í Elliðaánum í morgun. Samkvæmt hefðinni opnaði borgarstjóri árnar er hann renndi maðki í Sjávarfossin klukkan sjö.
Fjölmiðlar voru á staðnum og einnig dreif að áhorfendur er
vildu fylgjast með tilþrifum leikarans. Jón naut aðstoðar Ásgeirs
Heiðars, margreynds leiðsögumanns, og ekki liðu nema fjórar mínútur þar
til fyrsti laxinn hafði hremmt maðkinn. Skömmu síðar var sex punda
hængur kominn á land, maríulax borgarstjórans.
Borgarstjórinn vildi strax reyna
við fleiri laxa og í næsta hyl neðan við Sjávarfoss setti hann fljótlega
í annan á maðkinn. Sá náði að troða sér á milli grjóta í flúðini, festa
línuna og slapp. Þá héldu Jón og Ásgeir Heiðar niður á Breiðuna, þar
sem Elliðaárnar mæta hafi, og rétt fyrr klukkan átta í morgun landaði
borgarstjóri öðrum laxi þar, nýrunnum smálaxi.
Jón Gnarr sagði blaðamanna þá að hann hugðist taka fram flugustöngina og reyna að ná fyrsta flugulaxi sínum, en hann veiðir til hádegis.