Hátíðafundur Kvenréttindafélags Íslands var haldinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær. Að sögn Margrétar K. Sverrisdóttur, formanns Kvenréttindafélagsins, tókst fundurinn mjög vel og var mæting framar vonum.
Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum sagði frá því í ræðu sinni að nú væri búið að skipuleggja kvennafrídaginn 24. október 2010 og eru allar konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.25 og taka þátt í deginum. „Öll kvennasamtök á landinu ætla að taka höndum saman og gera kvennafrídaginn í október helst að heimsviðburði,“ segir Margrét.
„Nú liggur svo við að í ár er 24. október sunnudagur. Við ætlum því að hafa alþjóðlega ráðstefnu 24. október, þar sem fulltrúar frá Sameinuðu þjóðunum mæta og í kjölfarið færum við kvennafrídaginn fram á mánudaginn 25. október en þá fara allir í kröfugöngu,“ segir Margrét.
Búið er að hafa samband við systursamtök á Norðurlöndunum og stefnir er mikill áhugi fyrir samstarfi og segir Margrét þetta lofa góðu.
Á ráðstefnu félagsins í gær mættu margar konur og sú elsta hin 99 ára Sigurborg Hermannsdóttir en hún átti afmæli í maí. Segir Margrét að hún hafi talað um daginn sem konur fengu kosningarétt árið 1915 en þá var Sigurborg ásamt móður sinni á Austurvelli að fagna þeim áfanga.
Verndari kvennafrídagsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, en 30 ár eru liðin frá forsetakjöri hennar. Fleiri ártöl marka tímamót í kvennasögunni í ár en 90 ár eru liðin síðan konur fengu kosningarétt, 80 ár eru liðin frá stofnun Kvenfélagasambands Íslands, 35 ár frá fyrsta Kvennafrídeginum, 20 ár frá stofnun Stígamóta og fleira.
Nánar má lesa um kvennaárið og kvennafrídaginn á heimasíðu kvennafrídagsins.