„Niðurskurði til háskóla verður nú að linna“

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. mbl.is/Ómar

„Niðurskurði til háskóla verður nú að linna - við megum ekki við því að fórna meiri fjárfestingu í framtíð þjóðarinnar,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, í ræðu sinni til útskriftarnema í gær. HR brautskráði þá 501 nemanda og er það stærsti útskriftarhópur í sögu skólans.

Fram kemur í tilkynningu frá HR að Ari hefði bent á að íslenskir háskólar hefðu skilað gríðarlega öflugu starfi í menntun og rannsóknum fyrir um helming þess ríkisframlags á hvern nemanda sem reitt væri fram í nágrannalöndunum.

Hann sagði að háskólamenntun og nýsköpun væru þeir þættir sem helst stuðluðu að verðmætasköpun og hagvexti.

Hann hvatti jafnframt til þess að háskólar landsins stæðu miklu betur saman til að verja háskólamenntun. „Sundrað háskólasamfélag veikir stöðu háskólamenntunar og þar með samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar. Ég fagna því þeim skrefum sem tekin hafa verið til að efla samvinnu milli skóla og hlakka til að taka þátt í því starfi næstu árin,“ sagði hann. 

Alls 71 brautskráðist með diplómagráðu, 288 með bakkalárgráðu og 142 með meistaragráðu.

Brautskráningin fór fram við hátíðalega athöfn í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda.

Af þeim sem brautskráðust voru 272 karlar og 229 konur. Meðalaldur hópsins er 31,2 ár.

Viðskiptadeild brautskráði 155 nemendur, tækni- og verkfræðideild 153 nemendur, lagadeild 78 nemendur, tölvunarfræðideild 44 nemendur og kennslufræði- og lýðheilsudeild 71 nemanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert