Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, heldur erindi í dag á ráðstefnu um tjáningarfrelsi í Evrópu. Ráðstefnan fer fram í Brussel á vegum ALDE (Alliance of Liberals and Democrats for Europe) og mun Birgtta fjalla um nýsamþykkta þingsályktunartillögu um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi eða IMMI verkefnið, eins og málið er gjarnan nefnt.
Að sögn Birgittu í fréttatilkynningu er mikill áhugi á málinu víða um heim og binda margir vonir við nýsamþykkta þingsályktunartillögu.
Þann 16. júní samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem kveður á um að ríkisstjórninni verði falið að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem verndun heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð. Þingsályktunartillagan var samþykkt samhljóða og nýtur stuðnings þingmanna allra flokka.
Birgitta Jónsdóttir, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, lýsti því yfir við afgreiðslu málsins að með framgangi þess yrði Ísland að nokkurskonar skattaparadís með öfugum formerkjum þar sem upplýsingaleynd er eitt af megineinkennum skattaparadísa en tillagan gerir ráð fyrir að blaðamönnum og útgefendum verði tryggð ein sú mesta vernd sem hugsast getur.