Endurmeti húsnæðislánin

Verðtryggingin hefur hækkað fasteignalán mikið.
Verðtryggingin hefur hækkað fasteignalán mikið. Rax / Ragnar Axelsson

„Ég vil ekki spá um það en það er óhjákvæmilegt að Alþingi endurmeti stöðuna í ljósi þessa dóms sem hefur jafn víðtæk áhrif á stöðu skuldara,“ segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, aðspurður um hvort til greina komi að endurskoða verðtryggð húsnæðislán.

Helgi kveðst hafa verið fylgjandi slíkri skoðun en þess má geta að Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi slíkar aðgerðir í pistli á heimasíðu sinni í dag.

„Ég hef talað fyrir sanngjörnum, almennum skuldaleiðréttingum. Bæði hvað varðar gengistryggðu lánin og verðtryggðu lánin. Það áfall sem riðið hefur yfir er ekki bara hægt að leggja á lántakendurna. Því verða aðilar að deila með sér. Um leið er ekki hægt að ætlast til þess að lánveitandinn beri það að fullu,“ segir Helgi sem telur dóm Hæstaréttar um gengislán marka tímamót.

„Dómur Hæstaréttar leysir úr þessu fyrir mjög stóran hóp en hann mun magna upp umræðuna um verðtryggðu lánin. Þar hafa, auk mjög ríkulegra raunvaxta, lánin hækkað um nærri 30% á ríflega þremur árum með tilvísun til verðlagsþróunar. Á þeim tíma hefur hins vegar veðandlagið, það er að segja íbúðirnar sem lánað var út á, ekki tekið neinum verðlagshækkunum, heldur yfirleitt þvert á móti.

Á sama tíma er fólk að taka á sig 13% kaupmáttarrýrnun. Almennt má síðan segja að það sé mikilvægt að það séu ekki þeir sem tóku áhættusömustu lánin eða gengu lengst í skuldsetningu sem einir njóti aðgerða á þessum erfiðum tímum.

Venjulegt, vinnandi fólk sem hélt sig við íslensk lán og innan við hámark Íbúðalánasjóðs hefur líka margt orðið fyrir miklum hækkunum og viðbúið að krafan um aðgerðir fyrir það verði þyngri við þetta,“ segir Helgi Hjörvar.

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert