Þrátt fyrir umtalsverða hækkun áfengisverðs eru engar vísbendingar um að heimabrugg hafi aukist, að sögn Þórarsins Tyrfingssonar, yfirlæknis hjá SÁÁ. Þórarinn telur slíkar sögusagnir settar af stað af þeim sem eiga hagsmuna að gæta þegar áfengissalar er annars vegar.
„Þetta er kenning sem sett er af stað af þeim sem vilja láta lækka áfengisverðið og þeir eru mjög margir, sem vilja gera það. Þeir vilja lækka skattlagningu ríkisins af áfengi en þeir eru gríðarlega margir í þjóðfélaginu sem telja sig hafa hag af því að auka sölu og neyslu áfengis í landinu,“ segir Þórarinn.
„Ég get ekki séð að það séu nein merki í þessu þjóðfélagi eins og við sjáum það sem benda til að þessi kenning sé rétt. Það er venja þeirra sem eiga þarna hagsmuna að gæta að reyna að minnka álögur á áfengi og lækka verðið. Þeir eru alltaf að halda þessu fram og vilja meina að við séum í gríðarlegri hættu vegna aukins bruggs.“
Þórarinn telur nær útilokað fyrir landasala að keppa við núverandi dreifikerfi á áfengi.
„Framleiðsla, dreifing og sala áfengis í Evrópu og þar með á Íslandi er svo fagmannlega framkvæmd að það er ekki nokkur leið fyrir heimabrugg að keppa við hana.“
- Þannig að það eru engar vísbendingar um að heimabrugg sé að aukast?
„Nei,“ segir Þórarinn sem ítrekar fyrri orð sín um hina reglulegu umræðu um aukið brugg.