Andinn var góður hjá gönguhópnum á vegum Ferðafélags Íslands sem gekk Esjuna í kvöld til að verða vitni að sumarsólstöðunum. Hátt í 80 manns gengu fjallið en ekki fóru allir á tindinn, að sögn Þórðar Marelssonar fararstjóra.
Aðspurður hvort þetta sé árviss viðburður segir Þórður svo ekki vera. Iðulega hafi verið gengið á Snæfellsjökul á vegum Ferðafélags Íslands þennan dag ársins. Ganga á Esjuna sé hins vegar nýmæli.
Hópurinn sem gekk Esjuna að þessu sinni var á vegum TM en fyrirtækið bauð viðskiptavinum sínum í gönguna.
Boðið er upp á heitt kakó við Esjurætur að göngunni lokinni.