Herða eftirlit með læknum

Heilbrigðisráðherra segir þróunina í átt til frekari sameiningar í heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigðisráðherra segir þróunina í átt til frekari sameiningar í heilbrigðisþjónustu. mbl.is/Ómar

Stjórnvöld á Norðurlöndunum hafa sammælst um að herða og sameina eftirlit með norrænum læknum sem fara til starfa í einhverju hinna landanna. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir Norðurlöndin líta svo á að um mikilvægt skref sé að ræða en hún er nú á ráðherrafundi í Álaborg.

Álfheiður er þar á fundi norrænu félags- og heilbrigðisráðherranna en fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra að þeir séu „mjög ánægðir með aukna gagnkvæma upplýsingamiðlun sem muni bæta öryggi þeirra sjúklinga sem leita til læknis frá öðru norrænu ríki“. „Sjúkrahús hafa heldur ekki getað fengið slíkar upplýsingar þegar læknar frá öðrum norrænum ríkjum hafa sótt um störf hjá þeim.  Reiknað er þó með að sjúkrahúsin muni áfram leita meðmæla með umsækjendum á sama hátt og aðrir atvinnurekendur,“ segir í tilkynningunni.

Læknar sem flytjast á milli landa

Álfheiður segir málið hafa verið minna til umræðu á Íslandi. 

„Þetta hefur ekki verið mikið rætt á Íslandi enda eru dæmin sem vísað er til um lækna sem hafa farið á milli Noregs, Danmörku og Svíþjóðar og valdið skaða og fengið starfsleyfi í næsta landi án þess að yfirvöld sem veita starfsleyfið hafi nokkuð vitað af því. Þannig að þetta mál er í brennidepli hér, á þessu svæði, og ekkert sem við stöndum í vegi fyrir að verði skoðað betur.

Það verður tekinn tíminn fram til áramóta til þess. Hjá okkur er það Landlæknir sem veitir leyfi, starfsleyfi, og fer með eftirlit. Ég reikna með að hann muni fara í þessu vinnu með Norðurlandaþjóðunum.

Norski ráðherrann nefndi einn lækni sem hefði valdið skaða í Noregi fyrir tugi milljóna norskra króna og hafði verið bæði í Svíþjóð og Danmörku áður með svipuðum afleiðingum vegna mistaka. Þannig að þetta er stórpólitískt mál hér. Þetta er í öllum fjölmiðlum og mikið hitamál hér í Danmörku, Noregi og jafnvel í Svíþjóð.“

Þróunin í átt til aukinnar sameiningar

- Er mikið spurt um Ísland?

„Það er talsvert spurt um Ísland. Það er verið að ræða hér skipulag heilbrigðisþjónustu. Það er verið að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna, ekki aðeins á Norðurlöndunum heldur víðast hvar og menn eru að bera saman bækur sínar hvernig það er gert. Þróunin er allstaðar í átt til meiri sameiningar, eins og hjá okkur.

Tæknin og sérhæfingin er orðin svo mikil og það er svo dýrt að nýta þessi tækni að menn eru allsstaðar að draga hana saman og láta hana ná til stærri eininga. Hér eru menn að tala um að sérstök verkefni, sem eru gríðarlega dýr og alltof dýr fyrir einstaka þjóðir að fara í, verði leyst á norrænum grunni. Sem dæmi er prótónugeislun við krabbameinsmeðferð sem menn eru að ræða um að leysa á einum stað fyrir öll Norðurlöndin, á sama hátt og við erum að leysa hátækni krabbameinslækningar á einum stað á Landspítalnum.“

Að lokum kemur jafnframt fram í tilkynningunni að Norðurlöndin „hafi hingað til ekki miðlað upplýsingum reglulega um gagnrýni og aukið eftirlit, heimildir, rekstrarhömlur og annað sem varðar læknisþjónustu“.

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert