Navi Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, hrósar íslensku ríkisstjórninni sérstaklega fyrir binda í lög að heimilt skuli að gefa saman samkynhneigð pör á Íslandi. Ísland sé aðeins níunda landið í heiminum til að stíga þetta skref. Pillay var í opinberri heimsókn á Íslandi fyrir helgi.
Vísaði hún þar til breytinga á hjúskaparlögum sem Alþingi samþykkti nýlega. Sjá má frumvarpið hér og feril málsins hér.
Fjallað er um málið á vef Sameinuðu þjóðanna en þar segir að hjónabönd samkynhneigðra séu lögleg í Belgíu, Kanada, Hollandi, Noregi, Portúgal, Suður Afríku, Spáni og Svíþjóð, ásamt nokkrum sambandsríkjum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Pillay jók einnig lofsorði á íslensk stjórnvöld fyrir að hafa styrkt sjálfstæði dómstóla og aukið tjáningarfrelsi.
Hún var sem fyrr segir í opinberri heimsókn hér á landi fyrir helgi en þetta mun vera í fyrsta sinn sem mannréttindafulltrúi SÞ kemur hingað til lands.
Pillay hitti marga að máli í heimsókn sinni, þar með talið Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra og fjölda fræðimanna og annarra áhugamanna um mannréttindi.