Sjö hvolpar eru komnir í uppeldi á heimilum þar sem þeir verða undirbúnir undir að starfa með lögreglunni við fíkniefnaeftirlit. Hvolparnir eru undan Ellu og Nelson, labrador-hundum, sem hafa verið í þjónustu lögreglu og tollgæslu í mörg ár.
Lögregla og tollgæsla nota hunda sér til aðstoðar við löggæslustörf með það að markmiði að einfalda og auka gæði skilgreindra verkefna, t.a.m. á sviði eftirlits, forvarna og löggæslu, samkvæmt lögregluvefnum.
Á síðustu árum hafa embættin flutt inn sérvalda hunda frá viðurkenndum vinnuhundaræktendum á Englandi og í Noregi. Hundarnir hafa staðist ströng gæða- og persónuleikapróf en koma óþjálfaðir til landsins. Þessi tilhögun er kostnaðarsöm en var farin sökum þess hversu erfitt reyndist að finna hæfa hunda hér á landi.
„Í apríl mánuði á þessu ári steig embætti ríkislögreglustjóra, í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum og tollgæsluna fyrsta skrefið í ræktun eigin hunda til þjónustu við lögreglu og tollgæslu þegar fíkniefnaleitarhundarnir Ella og Nelson voru paraðir saman. Hundarnir eru báðir af Labrador kyni og hafa verið í þjónustu lögreglu og tollgæslu í mörg ár. Árangurinn af pöruninni eru sjö hvolpar sem nú eru orðnir liðlega átta vikna gamlir. Á næstu dögum verður hvolpunum komið fyrir á heimilum þar sem þeir fá hefðbundið uppeldi. Yfirþjálfarar lögreglu og tollgæslu fylgjast með hvolpunum með reglubundnum hætti en þegar þeir hafa náð tilskyldum aldri og þroska tekur við krefjandi þjálfun þar sem gert er ráð fyrir að þeir hæfustu verði komnir í þjónustu embættanna innan tveggja ára," segir á vef lögreglunnar.