Samtök lánþega hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þau leggja til að lánþegar allra gengistryggðra lána, hvort heldur um er að ræða gengisbundin bíla- eða húsnæðislán, lýsi sig reiðubúna til að hefja endurgreiðslur af téðum skuldbindingum um leið og fjármálafyrirtæki hafa leiðrétt skuldbindingu lánþega til samræmis við nýfallin Hæstaréttardóm.
„Þangað til mælast Samtök lánþega til þess að lánþegar greiði ekki neinar greiðslur, hverju nafni sem þær nefnast, sem fjármálafyrirtækin vilja innheimta á grundvelli gengistryggðra skuldbindinga.
Samtök lánþega hafa hingað til aðstoðað lánþega með góðum árangri og stendur slíkt að sjálfsögðu áfram til boða.
Undantekningalaust hefur réttarstaða lánþega sem leitað hafa aðstoðar Samtakanna leitt til bættrar stöðu gegn fjármálafyrirtækjum.
Samtökin hvöttu lánþega til að halda eftir greiðslum af gengistryggðum bílasamningum í þeim tilgangi að vernda fjárhagsstöðu sína.
Það hefur þegar orðið til þess að þeir sem tóku þátt í þeim aðgerðum eru mun betur settir fjárhagslega en þeir sem ekki gripu strax til aðgerða.
Samtökin telja að sama eigi við í þessu tilfelli og hvetja því alla þá sem hagsmuna eiga að gæta til að vernda þá hagsmuni með því að fresta öllum greiðslum af gengistryggðum skuldbindingum þar til leiðrétting hefur farið fram," segir í fréttatilkynningu sem Samtök lánþega hafa sent frá sér.