Stjórnvöld þurfa að taka strax af skarið og finna sáttaleið í kjölfar tímamóta dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán með aðkomu fulltrúa neytenda. Þetta er mat Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, sem hefur ritað Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra bréf þar sem hann leggur til leiðir að markinu.
Bréfið er hér aðgengilegt í heild sinni í viðhengi en þar gerir Gísli ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum. Hann hvetur fjármögnunarfyrirtæki til að forðast að skapa frekari ólgu í þjóðfélaginu.
„Ég legg til að fjármálafyrirtæki falli frá því að rukka samkvæmt óbreyttum samningum um næstu og þar næstu mánaðamót. Þannig forðumst við ólgu út af því enda hafa sumir neytendur lýst því yfir að þeir muni ekki greiða fyrir reikninga um næstu mánaðamót,“ segir Gísli sem telur stjórnvöld verða að hafa hraðar hendur.
„Það er mikil togstreita á milli tveggja sjónarmiða þar sem því er annars vegar haldið fram að beita skuli eðlilegum lagareglum sem vernda neytendur og eiga að tryggja að ekkert komi í staðinn fyrir þá gengismiðun sem var dæmd ólögmæt, svo það sé ekki hægt að hlutast til um mál neytenda, hvorki af hálfu löggjafans eða annarra um efni gildandi samninga.
Svo hins vegar hafa ábendingar borist úr ýmsum áttum undanfarið að ef sú verði raunin verði þjóðfélagsleg sátt rofin, að mynduð verði djúp gjá á milli tveggja hópa. Þetta er sjónarmiðið að ekki skuli hrófla við samningum ellegar beri fólk með verðtryggð lán skarðan hlut frá borði miðað við hina.“
Tvær leiðir
- Hver er leiðin að þjóðarsáttinni sem þú kallar eftir?
„Ég tel mig ekki vera búinn að finna hina einu réttu efnislegu niðurstöðun en er engu að síður að leggja til farveg eins og ég gerði í fyrra sem felur annars vegar í sér víðtæka sátt um niðurstöðuna eða gerðardómslausn eins og ég lagði til í fyrra,“ segir Gísli Tryggvason.