Skoði verðtryggðu lánin

Einar telur að skoða þurfi verðtryggð húsnæðislán.
Einar telur að skoða þurfi verðtryggð húsnæðislán. mbl.is/Rax

„Fyrir mér blasir það algjörlega við að það verður gríðarleg óánægja ef þetta misræmi gengur eftir án þess að litið verði á hagsmuni þeirra sem tóku verðtryggð lán,“ segir Einar K. Guðfinnson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður hvort hann telji að endurskoða beri verðtryggð húsnæðislán.  

„Þetta er vel að merkja býsna stór hópur,“ segir Einar sem segir sjálfstæðismenn ekki hafa tekið endanlega afstöðu til málsins.

„Á sínum tíma setti þingflokkurinn fram það sjónarmið að þetta bæri að skoða og þá á ég við almenna skuldaleiðréttingu.

Það sem ég er hins vegar að vekja athygli á í pistili mínum er að með þessum dómi Hæstaréttar kynni að koma upp sú staða að það yrði mikið misvægi milli annars vegar þeirra sem tóku erlend eða gengisbundin lán, sem nú hafa verið dæmd ólögleg, og hins vegar hinna sem voru með venjulega, innlenda verðtryggingu.“

Fyrirsjáanleg atburðarás

- Er samstaða á meðal sjálfstæðismanna um þetta eða eru einstakir þingmenn að baki þessarar skoðunar?

„Þessar vangaveltur mínar bar ég ekki upp í þingflokki Sjálfstæðisflokksins enda er þetta eingöngu mat mitt á stöðunni sem mér sýnist algjörlega við blasandi og fyrirsjáanleg.“

- Sérðu fyrir þér að Sjálfstæðisflokkurinn muni taka þetta upp á þingi?

„Ég held að minnsta kosti í máli mínu og fleiri sjálfstæðismanna muni þetta sjónarmið koma fram sem ég var að reifa, að þetta sé sú staða sem muni koma upp að óbreyttu.“

Ábyrgðarleysi að horfast ekki í augu við vandann

- Telurðu að fjármálastofnanir muni að óbreyttu ráða við slíka leiðréttingu?

„Ég skal ekkert um það segja né heldur vil ég slá því föstu með hvaða hætti menn nálgast þetta málefni. Ég er eingöngu að vekja athygli á því að þessi staða með misræmið virðist vera að koma upp og ég teldi að það væri ábyrgðarleysi að horfast ekki í augu við hana og fara yfir það mál,“ segir Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert