Fjöldi fólks kom saman við steinhengjurnar í Stonehenge í Bretlandi í morgun til að sjá sólarupprisuna. Stemningin var líka góð í Bólivíu, nánar tiltekið í hinni fornu borg Tiwanku. Þar fögnuðu menn því nú að daginn fer nú að lengja, öndvert við hallandi sól á norðurhveli.
Talið er að um 20.000 manns hafi komið saman við Stonehenge til að fylgjast með því þegar sólargeislarnir klifruðu upp yfir steinhringina.
Dagurinn í dag, 21. júní, er lengsti dagurinn á norðurhveli jarðar.
Lucas Choque Apaza, andlegur leiðtogi trúflokks í Bólivíu, segir í viðtali við Reuters-fréttastofuna hvernig hann og trúbræður hans færi fórnir í þágu alls mannkyns á þessum degi.
Þá séu færðar fórnir í þágu guðs Móður jarðar, guðs hins heilaga vatns og „afaguðs“ eldsins, svo þessu sé snúið í lauslegri þýðingu yfir á íslensku í óbeinni ræðu.
Ólíkt sumarsólstöðum á norðurhveli fagna Bólivíumenn því nú að daginn fer að lengja. Hátíðin er því fögnuður yfir endurkomu sólarinnar.