Veikir Hamas-samtökin

Sú ákvörðun Ísraelsstjórnar að aflétta hafnbanninu á Gaza að nær öllu leyti mun verða til þess að veikja Hamas-samtökin, samtök herskárra Palestínumanna, að mati Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sem fór yfir málið með öryggis- og utanríkismálanefnd Ísraelsþings í dag.

Fjallað er um málið á fréttavef ísraelska dagblaðsins Haaretz en þar er haft eftir Netanyahu að ákvörðunin um að heimila flutnings alls varnings sjóleiðina til Gaza, að frátöldum þeim sem tengist hernaði beint eða getur orðið Hamas að liði, hafi verið tekin í samvinnu við Bandaríkin og Tony Blair, formann Kvartettsins svonefnda í Mið-Austurlöndum.

Hafnbannið á Gaza hefur verið umdeilt af mannúðarástæðum og skellti Netanyahu skuldinni á fyrri Ísraelsstjórn, fullyrðing sem Tzipi Livni, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, vísaði á bug.

Þá fullyrti Netanyahu að hann hefði látið framkvæma rannsókn um mitt síðasta ár á kostum og göllum þess að aflétta hafnbanninu á Gaza.

Um 1,5 milljón Palestínumanna býr á Gaza en hafnbannið hefur ýtt undir viðvarandi vöruskort á svæðinu.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert