Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að boltinn sé hjá fjármögnunarfyrirtækjunum og mál þeirra sem eru með gengistryggð lán muni skýrast á næstu dögum. Viðskiptaráðuneytið er í samskiptum við fjármögnunarfyrirtækin en ólíklegt sé að ríkisstjórnin aðhafist eitthvað í málinu.
Gylfi á ekki von á öðru en að málið leysist og telur að óvissan eyðist ekki nema með úrskurði Hæstaréttar í sambærilegum málum þar sem nánar verður fjallað um leiðréttingu lánanna.
Hann kveður ríkisstjórnina hafa verið undirbúna fyrir niðurstöðu Hæstaréttar og teiknað upp viss viðbrögð við dómunum. Aðgerðir stjórnvalda hafa þó ekki verið ákveðnar en Gylfi telur ríkisstjórnina lítið geta gert þar til lánafyrirtækin hafa komist að niðurstöðu.
Þetta kom fram í máli Gylfa er hann ræddi við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.