Beðið um að tilkynna um utanvegaakstur

mbl.is/Jim Smart

Nokkuð hefur borið á kvörtunum um utanvegaakstur í Mosfellsbæ að undanförnu og virðist umferð jeppa, fjórhjóla og torfæruhjóla utan merktra vegslóða í hlíðum fella í Mosfellsbæ, s.s. Úlfarsfells og Æsustaðafells, vera algengur.  Ef íbúar Mosfellsbæjar verða varir við utanvegaakstur í sveitarfélaginu eru þeir beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Á vef Mosfellsbæjar kemur fram að samkvæmt náttúruverndarlögum er óheimilt að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, nema um sé að ræða snævi þakta og frosna jörð.  Ferðalangar á vélknúnum farartækjum eru vinsamlegast beðnir um að virða þessar reglur og halda sig á fyrirfram mörkuðum vegslóðum.

„Af gefnu tilefni er vakin athygli á því að akstur vélknúinna farartækja, þ.m.t. fjórhjóla og torfæruhjóla, er óheimill á reiðstígum vegna hættu á skemmdum og vegna slysahættu.

Það er mikilvægt að eigendur vélknúinna ökutækja sem bjóða uppá utanvegaakstur fylgi þessum reglum vel eftir og leiðbeini þeim sem ekki þekkja þær.  Í flestum tilfellum eru þessir hópar til fyrirmyndar, en það þarf ekki marga til að valda varanlegum skemmdum á viðkvæmdri náttúru," segir á vef Mosfellsbæjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert