Dómurinn skapar ekki peninga

Málefni skuldara eru í brennidepli eftir dóm Hæstaréttar um gengislán.
Málefni skuldara eru í brennidepli eftir dóm Hæstaréttar um gengislán. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Við þurfum að sjá í gegnum kófið áður en við förum að fullyrða eitthvað um hvernig staðan er,“ segir Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, um þau ummæli flokksbróður síns, Helga Hjörvars, að óhjákvæmilegt sé að verðtryggð húsnæðislán verði endurskoðuð. Dómur Hæstaréttar skapi ekki peninga.

Árni Páll telur umræðuna á margan hátt ótímabæra.

„Ég held að þetta séu alveg ótímabærar vangaveltur. Við þurfum að sjá hvernig fyrirtækin ganga frá málum hvað varðar myntkörfulán. Það er togast á um það hvernig haga eigi endurkröfum.

Það kann að vera að það verði enginn umtalsverður munur á stöðu þeirra sem tóku myntkörfulán og verðtryggð lán. Það kann líka að verða munur. Það er einfaldlega ótímabært að kveða upp úr um það. Það þarf þá væntanlega dómstóla til.“

Taki eitt skref í einu 

En telurðu að það sé ef til vill verið að byggja upp of miklar væntingar hjá einstaklingum sem eru með verðtryggð húsnæðislán?

„Ég held að við ættum að taka eitt skref í einu. Það skiptir miklu máli að finna lausn á þessu myntkörfumáli. Það er ekki þar með sagt að það hafi eitthvað annað í för með sér.

Það urðu engir peningar til við þennan dóm. Það hefur alltaf legið fyrir að flatar niðurfellingar skulda verða ekki gerðar nema með því að auka byrði skattborgara í landinu og skerða lífeyri aldraðra [...] Það skiptir miklu máli að sjá hvort staðan verður misjöfn hjá þessum hópi og myntkörfufólkinu. Það er líka varhugavert að staðhæfa að það verði mikill aðstöðumunur á milli ólíkra hópa. Það er alls ekkert ljóst enn þá.“

Of snemmt að skera úr um áhrifin

Árni Páll telur ekki að dómur Hæstaréttar hafi áhrif á meðferð Alþingis í málum sem varði skuldavanda heimila.

„Auðvitað hefur dómurinn þau áhrif að mjög margir sem voru í verulegum skuldavanda verða það væntanlega ekki í kjölfar dómsins. En það breytir auðvitað ekki því að hér þurfum við að setja upp kerfi til að taka á skuldavanda einstaklinga.

Við þurfum að hafa öflugt greiðsluaðlögunarkerfi og við þurfum að hafa umboðsmann skuldara. Hann mun hafa fjölþætt hlutverk við að aðstoða fólk í skuldavanda og veita fólki ráð um það hvernig uppgjör skuli fara fram. Þannig að ég sé ekki að þetta breyti á einn eða neinn hátt rökunum fyrir öllum þeim fjölþættu aðgerðum sem við erum að ráðast í,“ segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka