Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki sammála þeirri skoðun að algerlega liggi ljóst fyrir hvernig bregðast eigi við dómum Hæstaréttar um gengistryggð lán. Hann bendir á að uppi séu ólík sjónarmið hjá lögfræðingum um það hvernig eigi að taka á málinu.
„Sumir lögfræðingar segja að það hafi aðeins verið gengistengingin sem hafi verið dæmd ólögleg á meðan aðrir segja að þessir samningsbundnu vextir séu algerlega háðir því í hvaða gjaldmiðli var verið að lána og að annað hafi aldrei staðið til boða,“ segir Tryggvi.
Tryggvi segir enga leið að sjá fyrir hvernig hægt verði að leysa málið en hann sé þeirrar skoðunar að ekki verði skorið úr því nema fyrir dómstólum. Það sé erfitt að sjá fyrir sér að það leysist í einhverri sátt enda yrði það væntanlega aldrei nema í samræmi við ýtrustu kröfur.
„Ef þetta leysist ekki á næstu 2-3 dögum þá er lítið annað að gera en að reyna að hraða þessu fyrir dómstólum eins og hægt er til þess að fá úr því skorið. Ef þetta er látið hanga svona í loftinu þá seinkar það öllu hérna. Það er ekki hægt að taka neinar ákvarðanir inni í bankakerfinu um afskriftir eða neitt,“ segir Tryggvi og bætir við að málið setji að sama skapi allar efnahagsáætlanir í óvissu og seinki þeim.