Þrátt fyrir margar yfirlýsingar um óljóst réttarástand í kjölfar dóma Hæstaréttar um lögmæti gengistryggingar telja fræðimenn á sviði fjármunaréttar réttarstöðuna skýra.
Að þeirra mati standa lánasamningarnir óbreyttir fyrir utan gengistrygginguna sem dæmd var ólögmæt. Því beri að miða næstu innheimtu við greiðslu af höfuðstóli ásamt umsömdum vöxtum.
Þrátt fyrir þetta hafa fjármögnunarfyrirtæki borið fyrir sig mikla réttaróvissu og hafa mörg þeirra ákveðið að senda ekki út greiðsluseðla að svo stöddu. Heimildir Morgunblaðsins herma að Alþingi muni ekki láta til sín taka og bíða fyrirtækin því niðurstöðu dómstóla um mál varðandi breytingar á samningsskilmálum. Gæti hún leitt til hagfelldari niðurstöðu fyrir lánardrottna.
Formaður Félags fasteignasala telur dóminn koma fasteignamarkaðnum til góða. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins reiknar með að margir muni krefjast bóta.