Hættulegt aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ákveðinn hópur þingmanna Samfylkingarinnar sem heldur því fram, ásamt viðskiptaráðherra, að það sé allt í lagi að setja bara verðtryggingarákvæði inn í þessa samninga eftir dóma Hæstaréttar. Það er einhver hugmynd sem er gripin í algerlega lausu lofti,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Hann bætir við að svo virðist sem þessi hugmynd hafi upphaflega komið frá Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, í því augnamiði að rétta af hag lánafyrirtækjanna.

Þór segir ljóst að dómar Hæstaréttar taki aðeins á gengistryggingunni og öðru ekki og því sé engan veginn við hæfi að farið verði út í einhverja slíka lagasetningu. „Þeir fjalla um þetta grundvallaratriði hvort það sé heimilt að verðtryggja miðað við erlenda gjaldmiðla og það er ekki heimilt, og það er það eina sem dómarnir fjalla um.“

„Þetta virðist vera fordæmisgefandi fyrir öll lán og alla leigusamninga þar sem erlendir gjaldmiðlar hafa ekki skipt um hendur. Þetta gildir um íbúðalán og þetta gildir um eignaleigusamninga og rekstrarleigusamninga. Ég held að það sé alveg augljós niðurstaða. Hún getur ekki verið önnur,“ segir Þór.

Boltinn hjá ríkisstjórninni

Þór segir að fólk muni í framhaldinu einfaldlega láta reikna upp lánin sín á ný og byrja að borga af þeim í samræmi við það sama hvað lánastofnanir segja. Það þýði að þær muni þurfa að stefna þúsundum manna og spyr hvar það muni enda.

Það sem m.a. vanti sé yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um það hvernig tekið verði almennt á þessum málum. „En ríkisstjórnin vill ekki gera það, eða þ.e.a.s. Gylfi Magnússon vill allavega ekki gera það,“ segir Þór og bætir við að það sé engin einföld leið út út úr þessu.

„En ég held að það væri kornið sem fyllti mælinn ef ríkisstjórnin ætlaði að fara að setja verðtryggingu á þessi lán í kjölfar hæstaréttardómsins, þá muni fólk grípa til aðgerða. Ég er bara hræddur um það,“ segir Þór.

„Ég fagnaði því nú að það tók hér við vinstristjórn en ég held bara að með sleni og aðgerðaleysi sé hún orðin hættuleg. Það er alveg skelfilegt að horfa upp á þetta,“ segir Þór og bætir við að ríkisstjórnin hafi ekki verið með neina áætlun um það hvernig ætti að bregðast við ef Hæstiréttur úrskurðaði með þeim hætti sem hann gerði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert