Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kveðst alfarið ósammála Magnúsi Orra Schram, Samfylkingu, um að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi valdið hagsmunum Íslands skaða með ummælum sínum í kjölfar synjunar á Icesave-lögunum. Þvert á móti hafi forsetinn unnið þjóðinni gagn.
„Mér finnst þetta hjákátlegt að Magnús Orri sé að lýsa því yfir að hann sé núna, einum til tveimur árum eftir að menn þurftu að byrja að kynna málstað Íslands, að reyna að gera eitthvað í málinu og skammast svo um leið út í forsetann, sem á ekkert annað en heiður skilinn fyrir framgöngu sína í Icesave-málinu,“ segir Höskuldur en ummælin sem hann er að bregðast við má nálgast hér.
Vilja ekki málið fyrir dóm
Höskuldur bendir á að Íslendingum hafi verið meinað um dómstólaleiðina.
„Í munum huga er þetta skýrt. Við framsóknarmenn höfum ávallt lýst því yfir að við séum reiðubúnir að borga það sem við eigum að borga. Við höfum hins vegar gert ágreining um mörg efnisatriði. Ég hef aldrei lýst því yfir að við eigum að greiða lágmarksupphæðina, 20.887 evrur, nema að Hæstiréttur eða alþjóðlegur dómstóll urskurði að við eigum að gera það.
Bretar og Hollendingar hafa hingað til neitað okkur um dómstólaleiðina. Þá bendum við líka á það að Icesave-samningarnir 1 og 2, ef við getum kallað þá svo, voru afar ósanngjarnir fyrir Ísland og við gátum ekki sætt okkur við það. Ég vona að Magnús Orri bendi í samtölum sínum við evrópska þingmenn á að það er mikill og djúpstæður ágreiningur um þetta mál innanlands og að stór hluti þjóðarinnar hafi hafnað þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur viljað fara.“
Forysta forsetans
Höskuldur telur forsetann hafa sinnt verkefni sem ríkisstjórnin hefði átt að fara fyrir.
„Ég er sammála því að það hefur mistekist að gera grein fyrir réttarstöðu Íslands og á því beri ríkisstjórnin ábyrgð. Enginn annar. Það er enginn annar sem getur haldið uppi þeim áróðri erlendis þótt Indefence-hópurinn, við framsóknarmenn og forsetinn höfum gert það sem í okkar valdi stendur. Mér finnst afar ósanngjarnt að skella skuldinni á forsetann.
Hann hefur gert þjóðinni gríðarmikið gagn í þessari Icesave-deilu og haldið uppi merki merki þjóðarinnar og í raun og veru gert hluti sem ríkisstjórnin ætti að gera,“ segir Höskuldur Þórhallsson.