Lán frá AGS gæti tafist vegna dóms

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Hugsanlegt er að þriðja endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tefjist vegna óvissu í kjölfar nýfallins dóms Hæstaréttar þar sem gengisbinding lána var dæmd ólögleg af því að lög um vexti og verðtryggingu tilgreina ekki gengistryggingu sem verðtryggingu, að því er fram kemur í Markaðsvísi MP banka.

„Þessi dómur felur í sér að töluverður kostnaður fellur á ýmis fjármálafyrirtæki sem og á skattgreiðendur. Dómurinn leiðir því óhjákvæmilega til frekari tilfærslu kostnaðar frá þeim sem tóku og veittu áhættusöm lán á almenna skattgreiðendur en slík tilfærsla er í andstöðu við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Og óþarfi er að minna á að Icesave-málinu er ekki lokið,“ segir ennfremur í ritinu.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnir um vaxtákvörðun í fyrramálið. 

„Vaxtastefnan miðast enn við að að halda nægum vaxtamun til að koma í veg fyrir annað gengishrun við afnám gjaldeyrishaftanna sem sett voru á í lok árs 2008. Tilgangur haftanna og hárra vaxta er því sá sami: að koma í veg fyrir fjármagnsflótta. 

Ýmislegt hefur gerst frá því að síðasta vaxtaákvörðun var kynnt í byrjun maí. Seðlabankinn keypti íbúaðbréf og ríkisskuldabréf í eigu evrópska Seðlabankans og voru kaupin fjármögnuð með evruskuld ríkissjóðs.

Gjaldeyrisáhættan var þannig flutt af evrópska seðlabankanum og á íslenska skattgreiðendur. Bréfin voru svo seld lífeyrissjóðum gegn greiðslu í erlendum gjaldmiðlum og þannig var gjaldeyrisforði Seðlabankans aukinn. Síðan hefur eitthvað gengið á forðann en Seðlabankinn heldur áfram að kaupa upp erlendar skuldabréfaútgáfur ríkisins, sem að stærstu leyti voru notaðar til að fjármagna gjaldeyrisforðann við stækkun hans haustið 2006. Í reynd er því evrópski seðlabankinn losaður undan gjaldeyrisáhættu með því að draga úr áhættudreifingu lífeyrissjóðanna.

Lífeyrissjóðirnir keyptu skuldabréfin af Seðlabankanum með töluverðum afslætti sem bendir til þess að gjaldeyrishöftin haldi niðri ávöxtunarkröfu á innlendum markaði. Seðlabankastjóri hefur ítrekað lýst vilja til að hefja afnám hafta við fyrsta tækifæri en sennilega er það ekki komið, nema vilji sé til tölvuverðra vaxtahækkana og það er ósennilegt. Í síðustu fundargerð peningastefnunefndarinnar kemur fram að tveir nefndarmenn vildu þá lækka vexti meira en gert var. Þar kemur einnig fram að líklega verði ekki tímabært að hefja afnám hafta fyrr en að lokinni þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en sú endurskoðun er nú í gangi," segir ennfremur í Markaðsvísi.

Það er viðbúið að hluti peningastefnunefndarinnar telji óráðlegt að breyta vöxtum að sinni. En líklegt er einnig að hluti nefndarinnar vilji áfram lækka vexti vegna erfiðra efnahagsaðstæðna. Það eru því töluverðar líkur á óbreyttum vöxtum í fyrramálið og einnig töluverðar líkur á lækkun um hálfa prósentu, samkvæmt því sem fram kemur á vef MP banka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert