Neytendasamtökin telja að tilgreindir vextir í lánasamningum þar sem lánin eru tengd gengi erlendra gjaldmiðla skulu gilda. Þetta kemur fram á vef samtakanna vegna úrskurðar Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin.
Neytendasamtökunum barst til umsagnar erindi frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu þar sem óskað var eftir skoðunum samtakanna á því hvaða vextir skuli gilda á slíkum lánum. Stjórn Neytendasamtakanna fjallaði um málið í gær og komst að eftirfarandi niðurstöðu:
„Í ofangreindu erindi var óskað eftir viðbrögðum Neytendasamtakanna varðandi það hvernig vinna mætti úr þeirri stöðu sem upp væri komin í kjölfar Hæstaréttardóma í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og við hvaða vaxtafót, eða eftir atvikum verðtryggingu, skuli miða við leiðréttingu á lánasamningum sem tengdir hafa verið á ólögmætan hátt við gengi erlendra gjaldmiðla.
Neytendasamtökin telja að horfa verði til þess að áðurnefndir Hæstaréttardómar séu í raun skýrir hvað þetta varðar, en í þeim eru ákveðin ákvæði slíkra samninga ógilt á grundvelli þess að þau brjóti gegn lögum. Hins vegar er ekki tekið á öðrum þáttum lánasamninganna. Er það því mat samtakanna að samningarnir eigi að öðru leyti að standa.
Neytendasamtökin telja því að samningarnir, þ.m.t. ákvæði þeirra um vaxtakjör, eigi að standa óbreyttir, nema að því er varðar tengingu við erlenda gjaldmiðla og að lántökum beri endurgreiðsla þess sem ofgreitt hefur verið með vísan til ólögmætrar tengingar við gengi erlendra gjaldmiðla.”