„Dómar Hæstaréttar liggja fyrir, það er þrískipting valds á Íslandi, og það þarf bara að hlíta þeirri niðurstöðu,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hann segir að hins vegar sé ljóst að fjármálafyrirtæki telji að ekki hafi verið svarað öllum spurningum og að margt bendi til þess að þau muni láta reyna á málið áfram fyrir dómstólum. Málið sé einfaldlega í þeim farvegi.
„Þar sem ekki var gripið til almennrar lagasetningar um það hvernig skyldi farið með skuldamálin í þjóðfélaginu almennt í kjölfar forsendubrests af völdum hrunsins þá hefur Hæstiréttur ekki haft við neina slíka almenna lagastoð að styðjast,“ segir Ögmundur og bætir við að menn verði bara að taka einn dag í einu í þessu og fara varlega í yfirlýsingar.
Ögmundur segir að ef vextir hefðu haldist óbreyttir hefði verið nákvæmlega sama staða uppi og nú, þ.e. þau vaxtakjör sem eru á gengistryggðum lánum og ekkert annað en það. „Síðan verður forsendubrestur sem lántakendur hafa hingað til þurft að súpa seyðið af,“ segir hann.
„Það hefur náttúrulega verið staðreynd að það eru lánveitendur sem hafa haft sitt á þurru fremur en lántakendur. Nú hefur þessu verið snúið við. Þeir sem hafa riðað til falls sjá nú fram á að geta risið á fætur,“ segir Ögmundur.