Staða dagskrárstjóra hjá RÚV verður ekki auglýst í kjölfar þess að Erna Ósk Kettler lét af stöðunni af heilsufarsástæðum. Páll Magnússon útvarpsstjóri staðfesti þetta en í stað Ernu var Sigrún Stefánsdóttir valin nýr dagskrárstjóri RÚV. Erna verður aðstoðarmaður hennar.
Skýrt var frá ráðningu Ernu 27. apríl og er því skammt síðan hátt í 40 umsækjendum var greint frá því að þeir fengju ekki stöðuna.
„Það hvílir engin lagaskylda á Ríkisútvarpinu að auglýsa stöður yfir höfuð. Þannig að við metum það í hverju tilviki fyrir sig. Við auglýstum um daginn tvær stöður, stöðu mannauðsstjóra og dagskrárstjóra.
Við þær aðstæður sem núna sköpuðust, þegar Erna hættir af heilsufarsástæðum, að þá mat ég stöðuna einfaldlega þannig að hagsmunum RÚV væri best þjónað með því að fá Sigrúnu til starfans.
Bæði var það nú það að við þurftum til þess að gera að manna þetta fljótt og svo mat ég Sigrúnu mjög hæfa til að gera þetta. Þannig að við höfðum þann háttinn á að þessu sinni að auglýsa ekki heldur að bjóða henni starf. Það er sem sagt engin lagaskylda á RÚV að auglýsa stöður. Við gerum það oft en ekki alltaf.“
Telur ekki að auglýsa beri stöðuna aftur
- En væri ekki eðlilegt að auglýsa stöðuna í ljósi þess að 37 sóttu um hana á sínum tíma og að hinum 36 verði gert nú gert kleift að spreyta sig á nýjan leik?
„Nei. Eins og ég segi mat ég þær aðstæður sem sköpuðust í kjölfar ákvörðunar Ernu að hagsmunum RÚV væri best þjónað með því að fá Sigrúnu til starfans. Þess vegna gerði ég það.“
- Var Sigrún í hópi þessara 37 upphaflegu umsækjenda?
„Nei og sótti ekki um þegar staðan var auglýst.“
Gekk ekki fram hjá hinum
- Hverning svararðu þá til hugsanlegri gagnrýni að þar með sé gengið hjá hinum 36 umsækjendunum?
„Nei. Ég held að þeir geti ekki gert það. Við vorum búin að velja úr hópi þeirra sem sótti um stöðu dagskrárstjóra sem veikist og óskar eftir því að láta af störfum. Við þær aðstæður sem sköpuðust taldi ég hagsmunum RÚV best þjónað með því að fá Sigrúnu til starfans.“