Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna segir að samtökin líti á gengistryggðu lánin og verðtryggðu lánin sem tvö aðskilin mál. Þau hafni hugmyndum um að sett verði verðtrygging á gengistryggð lán. Dómar Hæstaréttar í málinu séu alveg skýrir að mati samtakanna, ekki sé úrskurðað um neitt annað en það að gengistryggingin sé tekin úr sambandi. Að öðru leyti eigi samningarnir að halda sér og þ.m.t. þau vaxtakjör sem kveðið sé á um í þeim.
Marinó segir að afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna til verðtryggingarinnar sé hins vegar sú að þau vilji að sett verði þak á hana sem miðist við 1. janúar 2008 og að árlegar verðbætur fari ekki umfram 4%. Skiptar skoðanir séu á því innan samtakanna hvað taka eigi við í framhaldinu, hvort verðtryggingin eigi að falla alfarið niður eða hvort vera eigi áfram með hana með slíku þaki. En þakið og takmörkin á verðbæturnar sé fyrsta skrefið.
Lánastofnanir stöðvi innheimtu
Í fréttatilkynningu skora Hagsmunasamtök heimilanna á lánastofnanir, sem veitt hafa lán sem kunna að falla undir dóma Hæstaréttar á dögunum um gengistryggð lán, að stöðva allar innheimtuaðgerðir vegna þeirra bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Samtökin vilja a.m.k. að innheimta verði takmörkuð við upphaflega greiðsluáætlun án tillits til gengisbreytinga. Öll óvissa um það hvaða lán falli undir dóma Hæstaréttar á meðan ekki hefur verið skorið úr því beri að túlka neytendum í hag.
Þá vara Hagsmunasamtök heimilanna lántakendur við því að þeir geti skaðað stöðu sína með því að hætta fyrirvaralaust að greiða af lánum sínum án þess „að tilkynna lánveitanda um ástæðu greiðslustöðvunar, komi til hennar, eða breytingu á greiðslutilhögun, s.s. að takmarka hana við upphaflegu greiðsluáætlun,“ og vísað til tveggja hæstaréttardóma í því sambandi.
Að lokum lýsa samtökin sig reiðubúin „að koma til viðræðna við fjármálafyrirtæki og stjórnvöld um hvernig leysa megi skuldavanda heimilanna.“