Varar við of miklum væntingum

Sigríður Ingibjörg bendir á að svigrúm ríkissjóðs til að fella …
Sigríður Ingibjörg bendir á að svigrúm ríkissjóðs til að fella niður skuldir heimila sé ekki mikið. Ómar Óskarsson

„Ég veit ekki hvar þeir ætla að sækja þá fjármuni. Ég hef áhyggjur af því að það sé búið að byggja upp of miklar væntingar,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, aðspurð um það sjónarmið að óhjákvæmilegt sé að verðtryggð húsnæðislán verði endurskoðuð.

Tilefni þeirrar umræðu, sem Helgi Hjörvar, Samfylkingu, og Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki, hafa farið fyrir er dómur Hæstaréttar um gengislán.

Sigríður Ingibjörg, sem er hagfræðingur að mennt, varar við of mikilli bjartsýni um að langt verði gengið í niðurfellingu húsnæðislána. Svigrúm ríkissjóðs til slíkra aðgerða sé ekki mikið.

„Ég skil vel að það er uppi andstyggileg staða hjá íslenskum heimilum sem eru mjög skuldug. Það er hins vegar ekki á marga staði að leita til að hafa uppi á fjármunum.“

Málin standa óhögguð

Aðspurð hvaða áhrif dómur Hæstaréttar um gengislán muni hafa á umræðu um frumvörp um skuldastöðu heimilanna á Alþingi síðar í vikunni segir Sigríður Ingibjörg að dómurinn hafi ekki bein áhrif, enda snúist sú vinna um greiðsluaðlögun einstaklinga en ekki bílalán. Því sé ekki bein tenging þar á milli.

„Þau mál sem eru í félags- og trygginganefnd og varða greiðsluaðlögun standa óhögguð því þau lúta að fólki sem er í alvarlegum greiðsluvanda. Hvað erlendu lánin snertir er uppi erfið staða sem hefur ekki beinlínis með þessi frumvörp að gera. Það er fjöldinn allur af fólki sem er í vandræðum þótt það sé ekki með erlend lán.“

En telur Sigríður Ingibjörg að sú umræða sem fram hefur farið um mögulega endurskoðun húsnæðislána kunni að leiða til endurskoðunar á þessum frumvörpum þannig að það verði jafnvel gengið lengra?

„Frá hruni hefur verið ljóst að ríkissjóður hefði ekki svigrúm til að koma að lækkun verðtryggðra lána. Dómur Hæstaréttar breytir engu þar um,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka