Bruðlurum bjargað

Þingholtin séð frá Hallgrímskirkjuturni. Krafa er uppi í þjóðfélaginu um …
Þingholtin séð frá Hallgrímskirkjuturni. Krafa er uppi í þjóðfélaginu um að endurskoða verðtryggð húsnæðislán í kjölfar dóms Hæstaréttar um gengislán. Ómar Óskarsson

„Það eru alltaf tvær hliðar á medalíunni og menn mega ekki gleyma því,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður um þau ummæli þingmannanna Helga Hjörvars og Einars K. Guðfinnssonar að dómur Hæstaréttar um gengislán gefi tilefni til að endurskoða verðtryggð húsnæðislán.

Dómur Hæstaréttar hafi verið mjög góður fyrir þá fjölmörgu sem voru komnir í vonlausa stöðu.

Pétur telur umræðuna um að afnema beri verðtrygginguna á miklum villigötum en hann telur jafnframt að dómur Hæstaréttar um að gengistrygging hafi verið ólögleg verðlauni þá í reynd sem hafi farið óvarlega með fé og tekið áhættu þegar aðgangur að lánsfé var hvað greiðastur. Frekari skref í þessa átt geti dregið úr vilja sparifjáreigenda til að leggja fyrir og þar með ógnað aðgengi að lánsfé í landinu.

Mikilvægi verðtryggingarinnar 

Pétur, sem telur mjög óheppilegt að svona víðtæk lánskjör hafi reynst ólögleg, bendir á mikilvægi verðtryggingarinnar í sparnaði landsmanna.

„Stærstu eigendur verðtryggðra krafna eru lífeyrissjóðirnir, sem fá þvingaðan sparnað. Þessi sparnaður tengist beint verðtryggingu á lífeyrisgreiðslum til lífeyrisþega. Nú má vel vera að menn telji að skerða megi kjör lífeyrisþega. Ég er hins vegar ekki viss um að þeir hafi breiðustu bökin til að bera byrðar.

Sparifjáreigendur eru mjög mikilvægir núna af því að Íslendingar fá ekki erlent sparifé. Það er borin von. Öll lán næstu árin munu koma frá þeim og lífeyrissjóðunum. En þeir eru í mjög viðkvæmri stöðu núna. Óverðtryggðir innlánsreikningar bera neikvæða vexti og þola stóraukna skattheimtu og umræðan um þann þjóðfélagshóp, sem frestar neyslu, sýnir ráðdeild og leggur fyrir er mjög neikvæð. Það er nánast skammaryrði að vera sparifjáreigandi. Sá hópur er því miður ekki nægilega stór.

Ef menn ætla að takmarka verðtryggingu á útlán en ekki á innlán og láta ríkið borga þá þarf að skera enn meira niður í velferðakerfinu eða hækka skatta enn meir.“

Knýr fjárfestingar innanlands

Pétur bendir á mikilvægi innlends sparnaðar fyrir fjárfestingar.

„Á næstu árum munu Íslendingar þurfa að lifa á innlendum sparnaði í öllum fjárfestingum. Verðtryggingin er einasta haldreipi sparifjáreigandans og ef menn ætla að höggva á það haldreipi í landi þar sem eru reglulegar skyndiverðbólgur sem eyðileggja óverðtryggðan sparnað er ég hræddur um að menn geti gleymt innlendum sparnaði og þá verður ekkert lánað út.

Ef ekkert er lánað út eru heldur engar framkvæmdir og engin atvinnuuppbygging vegna þess að við fáum ekki erlent sparifé.“

Erlendir sparifjáreigendur brenndir

Pétur segir óraunhæft að leita út fyrir landsteinanna að lánsfé.

„Erlendir sparifjáreigendur eru aldeilis brenndir. Það getur orðið hér alger stöðnun og ég held að menn þurfi virkilega að skoða hvernig þeir haldi sparifjáreigandanum við efnið.

Hvernig viðhöldum við vilja þess litla hóps manna sem sparar á Íslandi til þess að halda því áfram. Hvernig viðhöldum við vilja þeirra sem fresta neyslu; kaupa sér ekki jeppa, kaupa sér ekki utanlandsferðir og ekki flatskjái til þess að leggja fyrir.“

Umbunar þeir sem sýndu ekki ráðdeild

Pétur telur að niðurstaða Hæstaréttar umbuni í reynd þeim sem kusu að sýna ekki ráðdeild í uppsveiflunni. 

„Dómur Hæstaréttar er eins og blaut tuska í andlit sparifjáreiganda. Hann verðlaunar þá sem tóku áhættu, þá sem eyddu og voru óvarkárir í fjármálum.

Nokkrir sparifjáreigendur hafa hringt í mig og sagt að skilaboð dómsins séu að fólk eigi ekki að vera varkárt í fjármálum og ekki að leggja fyrir. Það á bara að taka áhættu, eyða og bruðla og láta svo bjarga sér.“

Skilja ekki efnahagslögmálin

Borið hefur á því í umræðunni að verðtryggingin sé böl sem verði að bæta. Pétur telur að margir málshefjendur virðist ekki skilja efnahagslögmálin sem hér séu að baki.

„Ég fullyrði að þeir átti sig ekki nægilega á því hvað þessi dómur Hæstaréttar þýðir fyrir fjármálakerfi landsins. Þeir átta sig ekki á því hvaða hlutverk bankar gegna í nútíma fjármálakerfi.

Menn geta haft hvaða skoðanir sem þeir vilja á bönkunum. Mér þykir t.d. mjög slæmt að þeir skuli til fjölda ára hafa staðið fyrir samningum sem voru ólöglegir en eftir sitjum við Íslendingar og þurfum að hafa starfandi bankakerfi.

Bankakerfið verður ekki starfhæft nema við höfum peninga sem innlán sem þeir geta lánað út. Þeir geta reynt að fá lán erlendis en það er búið að loka fyrir það, algjörlega. Þannig að verðtryggingin er haldreipi sparifjáreigandans og ef hann treystir ekki hagstjórninni þá getum við lent í því að þessi sparifjáreigandi hætti að leggja fyrir og eyði peningunum þess í stað. Og þá er ekkert til að lána.“

Mjög óheppilegur dómur

- Má því skilja að þú teljir þennan dóm óheppilegan?

„Hann er mjög óheppilegur því hann segir að um árabil hafi verið stunduð útlán sem voru með ólöglegum kjörum sem er ekki traustvekjandi. Þó ekki liggi alveg fyrir hvernig vextir eigi að reiknast er ljóst að mörg lán verða með erlendum lágum vöxtum á íslenskar krónur.

Þau lán munu væntanlega brenna upp eins og var fyrir 1980. Ekki liggur heldur fyrir hvaða áhrif dómurinn hefur á stöðu bankakerfisins. Svo er slæmt merki fyrir þá sem sýndu ráðdeild og tóku ekki áhættu og getur þannig skaðað sparnaðarviljann.“

- Telurðu því umræðu um að þetta sé mikið fagnaðarefni því vera of einhliða?

„Vissulega. Menn horfa aðeins á aðra hliðina á medalíunni og hlakka yfir því að bankarnir fari illa. Landið þarf eftir sem áður einhverjar bankastofnanir og sparifjáreigendur til þess að heimili og fyrirtæki geti fengið lán,“ segir Pétur H. Blöndal.  

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Pétur segir innlán nauðsynleg til að tryggja aðgang að lánsfé …
Pétur segir innlán nauðsynleg til að tryggja aðgang að lánsfé sem aftur geti fjármagnað framkvæmdir innanlands. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka