Kortaþjónustan hefur ákveðið að höfða mál gegn kortafyrirtækjunum Valitor, Borgun og Fjölgreiðslumiðlun vegna brota á samkeppnislögum. Fyrirtækin þrjú gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið í janúar 2008 þar sem þeim var gert að greiða 735 milljónir króna í stjórnvaldssekt fyrir brot sín.
Kortaþjónustan hefur fengið afhent afrit af málsgögnum Samkeppniseftirlitsins sem lágu til grundvallar þegar Greiðslumiðlun hf. (nú Valitor), Kreditkort hf. (nú Borgun) og Fjölgreiðslumiðlun hf. viðurkenndu að hafa brotið gegn Kortaþjónustunni með ólögmætum aðgerðum sínum á kortamarkaði.
„Félögin játuðu undanbragðalaust víðtækt samráð og mjög alvarleg brot á samkeppnislögum sem náðu yfir langt tímabil, voru framin af ásetningi og höfðu það markmið að koma Kortaþjónustunni út af markaði. Félögin gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið þann 10. janúar 2008 og var ákvörðuð stjórnvaldssekt sem gerði félögunum þremur að greiða samtals 735 milljónir króna. Það er hæsta sekt sem úrskurðuð hefur verið fyrir viðurkennt samkeppnislagabrot hér á landi," segir í tilkynningu frá Kortaþjónustunni.
Krefjast skaðabóta frá fyrirtækjunum þremur
Samkeppniseftirlitið úrskurðaði fyrir skömmu að Kortaþjónustan hefði rétt á að fá afrit af gögnunum, en Valitor, Borgun og Fjölgreiðslumiðlun höfðu lagst hart gegn því, samkvæmt upplýsingum frá Kortaþjónustunni.
„Gögnin, sem fengust með húsleitum hjá félögunum þremur í júní 2006, sýna greinilega hvernig víðtækt og alvarlegt samráð var haft milli félaganna þriggja um langt skeið sem miðaði að því að koma í veg fyrir að Kortaþjónustan næði fótfestu á markaðnum. Kortaþjónustan telur auðsýnt að Valitor, Borgun og Fjölgreiðslumiðlun hafi með samráðinu valdið félaginu verulegu fjárhagslegu tjóni og undirbýr á grundvelli gagnanna málsókn þar sem félögin verða krafin um skaðabætur vegna framferðisins. Kortaþjónustan vinnur nú úr gögnunum og mun skýra frá efni þeirra síðar," segir í tilkynningu.
Beittu Visa Europe þrýstingi
Í málinu sem um ræðir viðurkenndi Valitor að hafa gripið til margvíslegra ólögmætra aðgerða til að hrekja Kortaþjónustuna og samstarfsaðila þess, PBS í Danmörku, af markaði. Valitor nýtti m.a. stöðu sína á markaði til að fylgjast náið með starfsemi Kortaþjónustunnar og undirbjóða félagið með ýmsum sértilboðum til viðskiptavina þess, beitti tæknilegum hindrunum til að veikja starfsemi Kortaþjónustunnar og beitti Visa Europe þrýstingi í því skyni að hindra starfsemi Kortaþjónustunnar á Íslandi.
Jafnframt var viðurkennt að Valitor, Borgun og Fjölgreiðslumiðlun hefðu haft með sér margvíslegt ólögmætt samráð um aðgerðir í því skyni að vinna gegn innkomu Kortaþjónustunnar á markað og torvelda starfsemi félagsins, að því er fram kemur í tilkynningu.
Öllum brögðum beitt til að verja einokun
„Það er með ólíkindum að lesa í gegnum málsgögnin og sjá hvernig þessi félög höguðu sér þegar við komum á markaðinn. Brotaviljinn var einbeittur og öllum brögðum beitt til að verja einokunarstöðuna og bola okkur burt af markaðnum.
Gögnin skýra ýmislegt og við sjáum nú að ýmsar hindranir sem við höfum þurft að glíma við frá stofnun félagsins voru til komnar vegna umfangsmikilla ólöglegra aðgerða Valitor, Borgunar og Fjölgreiðslumiðlunar.
Eins og gefur að skilja hindraði það vöxt Kortaþjónustunnar og olli okkur verulegu tjóni sem eðlilegt er að þessi brotlegu fyrirtæki bæti okkur. Það er ekki nóg að þau sættist við samkeppnisyfirvöld og skipti um nafn – okkar tjón er enn óbætt og því munum við leita réttar okkar,“ segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.