Engar verkbeiðnir um vörslusviptingu bifreiða hafa borist dráttarbílaþjónustunum Vöku og Króki eftir að dómar Hæstaréttar féllu í málum SP fjármögnunar og Lýsingar.
Fjármögnunarfyrirtækin hafa mörg gefið út yfirlýsingar þess efnis að öllum innheimtuaðgerðum verði slegið á frest þar til niðurstaða fæst um leiðréttingu og endurútreikning lánanna.
Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, segir fyrirtækið vera í biðstöðu þar til niðurstaða fæst í málinu. „Þetta er risamál og við erum að reyna að forgangsraða þar til við komum þessu í eðlilegan farveg aftur í takt við nýjan veruleika,“ segir Halldór sem kveður Lýsingu ekki senda út greiðsluseðla til viðskiptavina að svo stöddu.