Kvótaaukning á sumargotsíld

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur í dag aukið leyfilegan heildarafla í íslenskri sumargotssíld á fiskveiðiárinu 2009/2010 um 5.000 lestir og því hækkar hann í 52.000 lestir.

Er þetta gert í því augnamiði að auðvelda makrílveiðar sumarsins 2010, þar sem óhjákvæmilegt er að íslenska sumargotssíldin veiðist sem meðafli við þær veiðar, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Komi ekki til þessarar aukningar er fyrirséð að ekki verði unnt að stunda makrílveiðarnar með eðlilegum hætti. Þessi aukning á núverandi fiskveiðiári verður dregin frá þeim leyfilega heildarafla sem verður gefinn út í íslensku sumargotssíldinni á komandi fiskveiðiári.

Það skal áréttað að veiðitímabili íslensku sumargotssíldarinnar lauk 30. apríl sl. og þessi aukning nú er því ekki ætluð til beinna veiða á tegundinni, heldur einvörðungu sem úrræði vegna meðafla við aðrar veiðar. Fyrir liggur vilji útgerða að miðla þessum heimildum eftir mætti, þannig að aðrir sem stunda veiðar á markíl en ráða ekki yfir heimildum í síld, geti stundað makrílveiðar með eðlilegum hætti," segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert