Ný reglugerð umhverfisráðherra gerir eindregnari kröfur en áður til fyrirtækja sem reka jarðvarmavirkjanir um að takmarka losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið.
„Þessar ströngu kröfur koma töluvert á óvart því okkur hafði verið tilkynnt að viðmiðunarmörkin yrðu önnur,“ segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Með reglugerðinni eru heilsuverndarmörkin sett við 50 míkrógrömm í rúmmetra að meðaltali fyrir 24 klukkustundir. Hingað til hefur verið miðað við mörk Alþjóða-heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) en þau eru 150 míkrógrömm í rúmmetra.
Hjörleifur segir reglugerðina setja strangari kröfur en gerist í flestum ríkjum. Algengast sé að miða við 150 míkrógrömm. Hann vonast þó til þess að Orkuveitan muni uppfylla skilyrði reglugerðarinnar en aðlögunartími er veittur til ársins 2014.