Össur: Höfum sterkar þjóðir með okkur

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson Kristinn Ingvarsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að mikilvægt sé að „vinda okkur" í að ljúka samningum um Icesave við Breta og Hollendinga og íslensk stjórnvöld bíði þess að þeir sýni það í verki að þeir séu reiðubúnir að setjast að samningaborðinu.

„Það er óþægilegt að hafa þetta yfir sér og óþægilegt fyrir íslenskt efnahagslíf," sagði Össur í Morgunútvarpinu og bætti við að í mars hefðu stjórnvöld verið hársbreidd frá því að ná samningum. „Ég er einn af þeim mönnum sem hafa reynt að draga [Breta] og Hollendinga að samningaborðinu síðustu mánuði en það hefur verið erfitt og ég hef haft ákveðinn skilning á því," sagði Össur og vísaði í kosningarnar í löndunum tveimur. „En hinsvegar þykir mér miður þegar Bretar og Hollendingar láta að því liggja að það sé einhver tregða af okkar hálfu, það er ekki svo."

Össur sagði jafnframt að ummæli breskra stjórnvalda um tengsl Icesave og inngöngu í Evrópusambandið væru fyrst og fremst til heimabrúks. Þeir hafi ekki getað „brugðið fyrir okkur fæti" hafi þeir viljað það því sterkar og öflugar þjóðir standi með aðild Íslands að ESB, s.s. Þýskaland og Norðurlöndin.  

Aðspurður um skoðanakannanir sem benda til vaxandi andstöðu þjóðarinnar við inngöngu í ESB benti Össur á að málið hefði alltaf verið gríðarlega umdeilt hjá öllum þjóðum sem gengið hafi inn í sambandið síðustu ár og það sé fullkomlega eðlilegt.  Hinsvegar sagði hann ljóst að skoðanakannanir hefðu ekkert forspárgildi varðandi útkomuna, það sem skipti máli sé að þjóðin taki sína ákvörðun þegar samningurinn sé kominn og kostir hans og gallar liggi fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert